Stjórnarfundur 22. maí 2003 (1. fundur)

Haldinn að Suðurbraut 16, Hafnarfirði, fimmtudaginn 22. maí 2003 kl. 20:00. Mættir voru: Kristín Guðnadóttir formaður og Sveinn Klausen. Fámennið helgaðist m.a. af því að tveir stjórnarmenn voru staddir erlendis. Aðrir gátu ekki mætt af ýmsum orsökum, en Kristín var í símasambandi við þau Sólveigu Kjartansdóttur og Davíð Diego.

Umræðuefni fundarins voru eftirfarandi:

Fundahöld með UST vegna skipulagsbreytinga
Kristín greindi frá fundi sem stjórnin væri boðuð á daginn eftir (23. maí) með forráðamönnum UST og fulltrúa Starfsgreinasambandsins, til að ræða skipulagsbreytingar UST og áform um breytingar á greiðslum fyrir ferðir landvarða á milli ráðningarstaðar og heimilis. Eftir nokkur símtöl og umræður um stöðu mála var frá því gengið að fyrir hönd LÍ sæktu þennan fund þau Kristín og Davíð Diego, auk Hildar Þórsdóttur fyrrverandi formanns og Friðriks D. Arngrímssonar trúnaðarmanns.

Framhaldsaðalfundur og undirbúningur hans
Rætt var um væntanlegan framhaldsaðalfund, dagskrá hans og ýmis praktísk atriði í tengslum við hann. Haft var samband við fyrrverandi formann vegna þeirra mála sem fyrir framhaldsfundinum lágu (reikninga félagsins og viðbóta við skýrslu stjórnar) og óskað eftir fundargerð aðalfundar. Ákveðið var að boða til annars stjórnarfundar innan nokkurra daga, m.a. til undirbúnings framhaldsaðalfundar.

Fréttabréfið ÝLIR, ný símaskrá LÍ og lagabreytingar
Sveinn sagði frá undirbúningi ritnefndar og hugmyndum að efni í næsta tölublaði ÝLIS. Ákveðið var að fréttabréfið kæmi út að framhaldsaðalfundi félagsins afstöðnum. Sveinn tók að sér að setja upp og senda út nýja símaskrá félagsins. Fundarmenn skiptu með sér verkum við að yfirfara og uppfæra heimilisföng og símanúmer í félagaskránni. Rætt var um lagabreytingar sem samþykktar voru á aðalfundi og tók Sveinn að sér að færa þær inn í lög félagsins.

Trúnaðarmenn, gjaldkeri LÍ og skipulag félagsstarfsins
Rædd var nauðsyn þess að tilnefna nýja trúnaðarmenn og ákveðið að því skyldi lokið fyrir framhaldsaðalfundinn. Velt var upp hugmyndum um hugsanlega kandídata en frekari ákvörðunum frestað til næsta stjórnarfundar. Einnig var rætt um hver gæti tekið að sér starf gjaldkera félagsins og ákvörðun í því efni einnig vísað til næsta fundar. Loks var fjallað um fyrirkomulag og boðun stjórnarfunda, heimasíðu félagsins og félagsstarfið almennt. Ákveðið var að leggja til við aðra stjórnarmeðlimi að hafa stjórnarfundi reglulega á „föstum“ dögum, til að koma starfi stjórnar í fastari skorður. Kristín setti fram hugmynd um að stjórnin reyndi að koma sér upp einhvers konar „atburðaalmanaki“, þ.e. dagskrá fram í tímann yfir fasta liði í starfi félagsins. Rætt var um vefsíðu félagsins og hugsanlegar endurbætur á henni.  Skoðaðar voru myndir sem hugsanlega mætti nota á síðunni.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið.
Ritari: Sveinn Klausen