Fundur stjórnar Landvarðafélags Íslands 25. september 2010 kl. 12:00
Fundarstaður: Íslenski barinn, Pósthússtræti 9
Mætt: Ásta Rut Hjartardóttir, Guðrún Lára Pálmadóttir, Torfi Stefán Jónsson og Þórunn Sigþórsdóttir.
1. Félagsgjöld
Senda þarf út rukkun fyrir félagsgjöldum fljótlega. Ákveðið var að hringja í fólk sem ekki hefur greitt félagsgjöld í tvö ár og spyrja það hvort það hefði áhuga á að halda áfram að vera í félaginu. Að öðrum kosti þarf að taka það út af félagaskrá.
2. Nefndir félagsins
Ekki tókst að ljúka mönnun nefnda á aðalfundi. Á fundinum var rætt um mönnun nefnda, og ákveðið að hringja í félagsmenn sem stjórnarmönnum þóttu geta hentað vel til þessara starfa.
3. Samráðshópur varðandi sjónarmið til veiða á Íslandi
Formanni félagsins hefur boðist að vera fulltrúi á fundi um veiðar á Íslandi. Sá fundur mun fara fram 14. október næstkomandi. Þar sem líklegt er að formaður vor komist ekki, var rætt um það hvern við gætum sent, en ekki var komist að lokaniðurstöðu um það. Formaður mun því sjá um það mál.
4. Alþjóðlegar landvarðaráðstefnur
Tvær alþjóðlegar landvarðaráðstefnur eru á döfinni á næstunni. Annars vegar er það Evrópuráðstefna, sem mun fara fram í Kaliningrad í Rússlandi næsta haust. Sú ráðstefna átti upphaflega að fara fram núna í haust, en var frestað um eitt ár. Hins vegar er um að ræða Alheimsráðstefnu landvarða, en hún mun fara fram í Tansaníu árið 2012. Ákveðið var að búa til styrktarsjóð fyrir væntanlega Tansaníufara.
5. Styrkir vegna ferða félagsmanna á landvarðaráðstefnur
Rætt var um það á fundinum að búa til sérstakan ráðstefnusjóð. Þessi sjóður myndi eingöngu styrkja ferðir félagsmanna á Evrópu og alþjóðaráðstefnur landvarða. Setja þyrfti hámarksupphæð sem mætti styrkja hvern félaga um, ásamt hámarksupphæð fyrir hverja ferð. Einnig þyrfti styrkþegi að skila inn greinargerð með myndum til félagsins. Ákveðið var að semja slíkar reglur og setja fram fyrir aðalfund.
Ásamt því að landvarðafélagið styrki félagsmenn til slíkra ferða, þá er ákjósanlegt að ferðalangar sæki einnig sjálfir tímanlega um aðra styrki. Til að mynda má sækja um hjá Menntamálaráðuneytinu og Umhverfisráðuneytinu, ásamt því að sækja um hjá Europark.
6. Aðbúnaður landvarða
Rætt var um mikilvægi þess að landverðir byggju við ákjósanlegar aðstæður á vinnustöðum sínum, en misbrestur varð á þessu á einu svæði síðasta sumar. Ákveðið var að taka þetta upp á fundi með Umhverfisstofnun.
7. Réttindamál landvarða
Guðrún Lára bendi á mikilvægi þess að landvarðanámskeið sé haldið á hverju ári. Það mætti hins vegar ræða það hvort námskeiðið ætti heima hjá Umhverfisstofnun eða hvort betur færi á að menntastofnun sæi um framkvæmd námskeiðsins. Ákveðið var að ræða við Umhverfisstofnun um þessi mál. Einnig var rætt um mikilvægi þess að samræmi sé á því hverjum sé veitt landvarðaréttindi og að ekki sé gefinn „afsláttur“ á ákveðnum þáttum landvarðanámsins, svo sem á umhverfistúlkun og vettvangsnámi.
Fjallað var um nauðsyn þess að landvarðanámið sé ekki of dýrt, en dæmi eru um það að hæfileikaríkir einstaklingar hafi ekki treyst sér til að mæta á námskeiðið sökum kostnaðs. Rætt var hvort betur færi á að námið væri ódýrara og styttra, en á móti kæmi að annað nám væri metið meira inn. Einnig var bent á að athuga mætti hvort Vinnumálastofnun gæti styrkt atvinnulaust fólk til að fara á landvarðanámskeið.
8. Haustferð
Árni B. Stefánsson hellamaður hefur boðist til að fara með félagsmönnum Landvarðafélagsins í hellaferð. Stjórnarmeðlimum þótti gráupplagt að taka þessu góða boði. Ákveðið var að ræða við skemmtinefnd og Árna um nánari útfærslu á ferðinni.
9. Sameining þjóðgarða
Rætt var um að semja ályktun þess efnis að félagið telji að það eigi að sameina þjóðgarðana á Íslandi undir einni stofnun.
Fundi slitið kl. 13:50
Ritari: Ásta Rut