Haustferð í Stefánshelli

Laugardaginn 13. nóvember verður boðið upp á spennandi hellaferð fyrir félagsmenn í Stefánshelli í Hallmundarhrauni með Árna B. Stefánssyni augnlækni og hellakönnuði. Árni býr yfir miklum fróðleik um hella og hellavernd sem hann ætlar að deila með okkur. Lagt verður af stað úr Reykjavík kl. 10 frá náttúrufræðihúsinu Öskju að Sturlugötu 7. Ferðin tekur um 7 klst. Um kvöldið verður efnt til haustteitis og verður það nánar auglýst síðar.

Stefnt er á að fara saman í rútu sem félagið mun niðurgreiða og verður kostnaði því haldið í lágmarki. Nauðsynlegt er að hafa fjöldann nokkurn veginn til taks fljótlega vegna rútumála. Við biðjum ykkur því að bregðast skjótt við ef þið hafið áhuga á að slást í för með því að senda póst á landverdir@landverdir.is eða hringja í Gunnu Láru í síma 862 6362 fyrir 1. nóvember. Makar eru velkomnir og greiða þá fullt gjald fyrir rútuna.