Stjórnarfundur 14. mars 2006 kl. 20:00

Mætt: Áki Jónsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Elísabet Svava Kristjánsdóttir.

Dagskrá og umræður:

1. Landvarðanámskeiðið
Ákveðið var að útbúa nafnalista þannig að nemendur á námskeiðinu geti skráð sig inn í félagið.  Fulltrúar frá félaginu munu fara á námskeiðið til að kynna starfsemi Landvarðafélagsins.

2. Styrkumsóknir vegna Skotlandsferðar
Farið var yfir það hvernig þau mál standa, búið er að senda tvær umsóknir, þrjár eru á leið af stað og enn fleiri í burðarliðnum.

3. Fundur með UST
Nauðsynlegt er að fara að halda fund stjórnar LÍ og UST.  Rætt var um hugsanlega dagskrárliði á þeim fundi, s.s. um Skotlandsferð, landvarðavikur sumarsins, annað fyrirkomulag sumarsins, fjármagn til friðlýstra svæða og einnig að það þyrfti að ákveða dagsetningar fyrir fundi sumarsins hjá UST og LÍ.

4. Fjáröflunarnefnd Skotlandsfarana
Nefndin sú er búin að ákveða að fram skuli fara kynning á Landvarðafélagi Íslands í Kringlunni laugardaginn 22. apríl 2006.  Þar verður einnig selt góðgæti til styrktar Skotlandsförunum. 

5. Vefsíða landvarðafélagsins
Ákveðið var að kynna þyrfti betur stórglæsilega vefsíðu Landvarðafélagsins, www.landverdir.is, og ekki síður að kynna málbeinið, spjallvef landvarða.
6. Aðalfundur Landvarðafélags Íslands
Aðalfundurinn verður haldinn 10.apríl 2006 í Litlu Brekku.  Gert er ráð fyrir að hann hefjist kl. 18.  Formaður, gjaldkeri og einn meðstjórnenda sitja ekki áfram í stjórn og því þarf að finna vænlega kandidata í þeirra stað.  Markmiðið er að fundurinn taki þrjár klukkustundir.  Ásamt því að fólk vanti í stjórn, þá vantar einnig mannskap í sumar nefndir félagsins.  Umhverfisnefndina þarf hugsanlega að endurskoða, það vantar fólk í skemmtinefndina ásamt því að það vantar trúnaðarmenn fyrir sumarið.  Ákveðið var að biðja Jóhönnu Katrínu Þórhallsdóttur og Rebekku Þráinsdóttur að halda kynningu í byrjun fundarins á ferð sinni á samnorræna ráðstefnu norsku landvarðasamtakanna (FNN) árið 2005.  Samþykkt var að athuga hvort Friðrik Dagur Arnarson gæti tekið að sér fundarstjórn.
7. Vorferð félagsins
Ákveðið var að laugardaginn 20.maí verði farin ferð á Þingvelli, þar sem Einar leiðsögumaður ætlar að taka á móti hópnum kl. 14 og ganga í 3 klst.  Einnig er hugsanlegt að haldið verði í grill í Valhöll eftir göngutúrinn.  Hugsanlegt er að farið verði í ævintýralandið hjá Ultima Thule.  Þetta verður heilsdagsferð, lagt af stað kl 9 og áætlað að koma til baka um kl. 21.
8. Ógreidd félagsgjöld
Sent verður ítrekunarbréf á þá sem ekki greiddu félagsgjöld síðasta ár og einnig þá sem ekki hafa greitt þau tvö síðastliðin ár.

Fundi slitið kl. 21:50
Ritari: Ásta Rut