Fundur UST og LÍ 3. apríl 2006

Mætt: Árni Bragason, Davíð Egilsson og Þórey Guðmundsdóttir frá UST, Áki Jónsson, Ásta Rut Hjartardóttir og Elísabet Kristjánsdóttir frá LÍ.

Dagskrá og umræður:

1. Skotlandsráðstefna
Landvarðafélag Íslands sendi UST fyrr í vetur beiðni um styrk vegna Skotlandsfarar 11 landvarða í félaginu.  Elísabet ræddi almennt um þessa ferð.  UST sá sér ekki fært að styrkja ferðina, þeir ætla að senda Kára Kristjánsson á ráðstefnuna.  Árni ræddi um áhuga Scottish Natural Heritage fyrir frekara samstarfi.  Davíð sagði peninga stofnunarinnar vera eyrnamerkta og því væri erfitt að styrkja ráðstefnuferðir líkt og þessar.  Þeir bentu á það hvort hugsanlega mætti fá styrk frá Þróunarstofnun.  Talið var ólíklegt að eitthvað breyttist í þessum málum, en fulltrúar LÍ báðu UST um að láta sig vita ef eitthvað breyttist.
2. Dagskrá fyrir sumarfundi
Ákveðið var að hafa fundina 3. júní, 12. júlí og 6. september. Það eru trúnaðarmenn sem mæta á þessa fundi ásamt stjórn félagsins.

3. Landvarðavikur
UST er að gera þjónustusamninga í tengslum við Skaftafell.  Þá munu aðilar í nálegð við Þjóðgarðinn (t.d. í Hólaskjóli og á Stafafelli) veita upplýsingar um þjóðgarðinn og m.a. hafa bæklinga til taks.  Veggspjöld verða búin til þar sem staðirnir sem hægt er að fá upplýsingar um þjóðgarðinn verða merktir inn.  Hugmyndin með þessu er sú að skapa tengsl við svæðið.  Þó kom fram að þetta er á kostnað hefðbundinnar landvörslu.  Elísabet benti á nauðsyn þess að sýn landvarða kæmi fram, þ.e. að hún myndi í raun skerðast með þessu móti.  Þrír heilsársstarfsmenn þjóðgarðsins (Kári, Helga og Hafdís) eiga að sjá um tengslin við þá aðila sem UST mun gera þjónustusamninga við.
Í Lónsöræfum mun Helga Davids sérfræðingur starfa í 3 vikur.  Elísabet ræddi um nauðsyn þess að landvörður hefði viðveru í Lónsöræfum, enda hafi sama og engin landvarsla verið í Lónsöræfum síðasta sumar.  UST mun senda sjálfboðaliða í Lónsöræfi ásamt því að gera samning við ferðafélagið.  Árni benti á að sjálfboðaliðar hafi unnið mikið af vinnu landvarða, en Elísabet benti á það á móti að það væri tvennt ólíkt, því sjálfboðaliðar þekktu svæðið ekki eins og landvörðum er ætlað að gera og ekki er tryggt að þeir hafi þá þekkingu sem landvörður getur skilað til gesta varðandi fræðslu,upplýsingagjöf,samskiptahæfni og þess háttar. Einnig ræddi Árni um nauðsyn þess að í Lónsöræfum væru góðar merkingar og stikur enda getur skollið þoka þar á fyrirvaralaust.  Af einhverjum ástæðum hefur þó gestum fækkað í Lónsöræfum á milli ára bætti hann við.
Elísabet benti á að henni fyndist að heilsársstöður ættu að vera viðbót við landvörsluna, en ekki skerða sumarlandvörsluna.  Árni sagði að heilsárslandverðirnir þyrftu frí yfir sumartímann og það væri ekki til peningur fyrir starfsfólki í afleysingar.  Einnig ræddi Elísabet um það hve erfitt það sé að peningar séu ekki eyrnamerktir landvörslu, og hafi ekki verið frá því árið 1993.  Árni og Davíð sögðu að þetta hafi verið í forgangi en ekki fengist.  Þeir bentu á að talsverður peningur hafi verið að koma inn, t.d. í Gljúfrastofu og Mývatnsstofu.  Davíð nefndi að ef landvarsla væri eyrnamerkt hefði t.d. ekki verið hægt að búa til þjónustusamninga eins og nú er verið að gera varðandi Skaftafell.
Davíð ræddi um að það þyrfti að gera eitthvað varðandi friðlandið að Fjallabaki, enda sérlega slakt ástand á Landmannalaugum.  Við Gullfoss hefur orðið mikil breyting til batnaðar eftir að rekstraraðilar þar fóru að taka til á svæðinu.
4. Fræðslumál
Þorsteinn Hymer sérfræðingur í Jökulsárgljúfrum mun kenna skyndihjálp þetta árið, hann er kominn með réttindi til þess.  Þá er möguleiki á að þetta verði í Reykjavík eða þá að hann ferðist um og kenni skyndihjálp úti á svæðunum.  Þá gæti Þorsteinn kynnt sér aðstæður á svæðunum og miðað kennsluna út frá því.  T.d. væri hægt að safna fólki af nálægum svæðum saman í þjóðgarðana og halda námskeiðin þar.
Elísabet ræddi um nýju námskrána fyrir landvarðanámskeiðið og lýsti yfir ánægju með hana.  En nefndi einnig að sumum á menntamálafundi LÍ fannst að það ætti að vera meiri áhersla á álitamál í náttúruvernd.  Hún benti einnig á að margir biðu eftir endurmenntun.  Árni sagði að meira væri verið að vinna í verkefnum en kom fram með þá hugmynd hvort þetta ætti hugsanlega frekar heima í endurmenntun.  Hann nefndi einnig að þetta væri spurning um vægi, námskeiðið er 120 klst, það sé verið að stækka umhverfistúlkunarþáttinn en ekki hægt að gera það endalaust.  Ásta benti á það hve gott það væri að í nýju námskránni væri rætt um eftirfylgni með landvarðanámskeiðinu, þ.e. að landverðir fái að meta námskeiðið eftir 1 sumar í starfi og einnig að yfirmenn svæða meti það hvernig það nýttist.  Árni ræddi um að setja námskrána í mat hjá LÍ og etv Umhverfisráðuneytinu.
Rætt var um það hvort halda mætti sameiginleg fræðslukvöld, Davíð nefndi að hugsanlega mætti fá siðfræðing til að ræða um álitamál í náttúruvernd.
Elísabet kom með þá tillögu sem fram kom á menntamálafundi LÍ 30.mars sl.,um það hvort að félagið ætti að koma að vali á kennurum á landvarðanámskeiðið.  Árni svaraði því til að ábendingar væru vel þegnar, Davíð sagði að það væri mjög gott að fá þannig ábendingar.
5. Landvarðafatnaður
Í sumar eru líkur á að sjá megi landverði í nýjasta tískufatnaðinum enda er UST að endurnýja fatnað landvarða.  Keyptar verða úlpur, flíspeysur, bolir og klútar handa öllum ásamt buxum fyrir svæði utan þjóðgarða.  Útlit fatnaðarins verður svipað og hjá Þingvallaþjóðgarði.
6. Mývatnssveit
UST er búið að leigja Zansibar til 20 ára.  UST kemur til með að leigja frá sér hluta húsnæðisins, en hluti verður að Mývatnsstofu.  Sveitarfélagið ræður 1 starfsmann í heilt starf í sumar en hálfan daginn á veturna.  Heilsársstarfsmaður verður ráðinn á vegum UST ásamt því að fjórir landverðir munu starfa yfir sumartímann í sumar.  Búið er að skipuleggja svæðið frá Zansibar og út að þjóðvegi sem þjónustusvæði.
Fundi slitið kl. 15:30