Stjórn Landvarðfélags Íslands var að senda iðnaðar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra eftirfarandi bréf:
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Iðnaðar- , viðskipta- og ferðamálaráðherra
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagata 4
101 Reykjavík
Reykjavík 10. desember 2014
Opið bréf til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur Iðnaðar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra.
Stjórn Landvarðafélag Íslands vill hér með gera athugasemd við notkun orðsins „náttúruverðir” sem heiti yfir eftirlitsmenn með fyrirhuguðum náttúrupassa. Orðið er einungis notað í umræðu og fjölmiðlum, en hvergi í frumvarpi til laga um náttúrupassa né í athugasemdum um frumvarpið. Einungis er talað um að Ferðamálastofa sjái um eftirlit. Félagið telur heppilegra að nota starfsheitið eftirlitsmenn með náttúrupassa. Eftirlitsmenn munu ekki sinna eiginlegri náttúruvernd, þar með talið viðhald á svæðum, lokun og afgirðingu svæða, fræðslu og ruslatínslu. Því er óheppilegt að kalla þessa eftirlitsmenn „náttúruverði” og getur leitt til misskilnings og rugling við landverði. Megin hluti vinnu landvarða er bein eða óbein náttúruvernd, hvort sem þeir eru að vinna að fræðslu eða að tína rusl. Jafnframt myndi enska þýðingin á orðinu „náttúruvörður” væntanlega vera Nature warden og hefur það verið notað yfir landverði bæði innanlands sem og erlendis. Starfsheitið „náttúruverðir” getur því valdið miklum misskilningi hjá erlendum ferðamönnum.
Óskum við því eftir að iðnaðar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra sem og aðrir hætti að tala um „náttúruverði” og tali um þá sem sinna þessu eftirliti sem eftirlitsmenn.
Virðingarfyllst,
Stjórn Landvarðafélags Íslands