Nýr landvarðarbústaður í Blágiljum

-vatnajokulsgardur2010_121338602

-vatnajokulsgardur2010_121338602

Af vef sunnlenska:

Nýr landvarðarbústaður var opnaður formlega í Blágiljum í Skaftárhreppi í síðustu viku.

Þetta er fyrsta húsið af þessu tagi í Vatnajökulsþjóðgarði en það er hannað af arkitektastofunni Arkís. Markmiðið var að hanna sjálfbært hús með tilliti til orkunotkunar, frárennslis og viðhalds sem nýst getur Vatnajökulsþjóðgarði á fleiri stöðum innan garðsins.

Það er byggt upp af einingum sem hægt er að flytja og raða saman á mismunandi hátt, í misstórum einingum eftir umfangi starfseminnar, svo það falli sem best að landslagi á hverjum stað.

Húsin eru klædd að utan með cortenstáli sem myndar með tímanum náttúrulega ryðbrúna, viðhaldsfría yfirborðsáferð. Aðlægt grjót verður notað í grjóthleðslur upp að veggjum og palli svo húsin falli sem best inn í landslagið á hverju svæði. Að innan eru veggir og loft klædd með birkikrossviði og furuborð eru á gólfum.

Blágiljahúsið samansendur af einni gunneiningu, 25 m2 íbúð landvarðar ásamt 12 m2 verkstæði og geymslu. Pallur tengir húsin saman en gert er ráð fyrir viðbótareiningu með eldunarkrók og setustofu þegar landvörðum fjölgar á svæðinu.

Smíði og uppsetningu hússins annaðist RR Tréverk ehf á Kirkjubæjarklaustri.