NÄKKÄLÄ – áhugaverð heimildamynd

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum kynnir:
NÄKKÄLÄ
Heimildamynd um vináttu tveggja ólíkra manna í stórbrotinni náttúru finnsku túndrunnar

Miðvikudagur 5. mars kl. 18:00
Norræna húsið
Aðgangur ókeypis
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stendur fyrir sýningu á heimildamyndinni Näkkälä sem fjallar um vináttubönd tveggja ólíkra manna í stórbrotinni náttúru finnsku túndrunnar. Näkkälä er lítið þorp í Norður-Finnlandi þar sem fólk og dýr búa í nánu sambýli við náttúruna. Hans Ulrich Schwaar, rithöfundur frá Sviss sem kominn er á efri ár, hefur átt þar búsetu síðastliðin 20 ár hjá hreindýrabóndanum Iisakki-Matias Syväjärvi. Lífsviðhorf Samanna hafa veitt skáldinu mikinn innblástur og djúpstæð vinátta þróast á milli hans og hreindýrabóndans þrátt fyrir ólíkan bakgrunn.

Í myndinni er mönnunum tveimur fylgt eftir og lífinu í þessu litla þorpi gerð góð skil. Flestir byggja afkomu sína á hreindýrabúskap og eru í náinni snertingu við náttúruna sem allir vita að sýnt getur á sér ýmsar hliðar á norðlægum slóðum. Lífsvenjur eru töluvert ólíkar því sem gengur og gerist í okkar hraða nútímasamfélagi og önnur viðhorf til lífs og dauða, einveru, lífsgleði o.s.frv. Meðal góðra vina er þögnin ekki síðri samskiptamáti en hið talaða mál.

Þó stórbrotin náttúra skipi stóran sess í myndinni þá fjallar hún einnig um samskipti milli fólks; samlyndi, vináttu, ósætti og andstæður.   Kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Ramseier hefur fangað líf þessa fólks með einstaklega ljóðrænum og fallegum hætti.  Myndin er 88 mínútur að lengd og með enskum texta.