Mín skoðun

MÍN SKOÐUN

Upphaflega birt í fréttabréfinu Ýli í janúar 2002.

Mér dettur stundum í hug hvort við ættum ekki að hætta við umhverfismatið, leggja niður Náttúruverndina og loka Umhverfisráðuneytinu. Stundum, reyndar býsna oft. Mér dettur þetta einkum í hug þegar ég sé hvað nálgun ríkisvaldsins í umhverfismálum er oft ofboðslega laus við að vera fagleg.
Til hvers eru sérfræðingar, fræði og þekking? Þessir menn streða eins og rjúpan við staurinn og verpa eggjum sem pólitíkusarnir taka síðan og spæla. Hverju skilar þetta? Í alvöru talað, hvernig stendur á því að árangurinn er ekki meiri af allri þeirri vinnu sem hæft og viljugt fólk er að vinna? Auðvitað hefur ýmislegt áunnist, en forsendurnar, markmiðin, sjálfur kjarninn, eru ótrúlega á reiki. Nóg er um dæmi. Matsskýrslan um Kárahnjúka er ekki einu sinni nothæf utan um jólapakka ráðherrans. Ríkið skammtar naumt og ef einn fær ögn, bitnar það á hinum. Fagmennskan lendir í aftursætinu. Fjárveitingar til Náttúruverndar ríkisins duga ekki til að mæta síauknum verkefnum og allt líður fyrir, jafnt innan dyra og meðal landvarða á mörkinni. Skortur er á fé, mannafla, tíma og alltaf verið í reddingum. Samt eru til peningar, en hugsun ríkisvaldsins er einnota og skammt fram í tímann!
Svona verður þetta meðan ekkert er gert til að breyta því. Meðvirkir þrælar puða undir pressu frá ríkinu og horfa á það sem sannara reynist troðið undir hagsmunapot og skammtímahagsmuni þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður. Við litlu karlarnir að reyna að gera gott úr öllu fyrir höfðingjana (annars gæti það líka bitnað á okkur sjálfum). Þarf ekki að setja svolítinn sand í þessa vél sem hefur verið látin malla átakalítið, svo þessir háu herrar taki kannski eftir? Standa upp, standa á meiningunni, standa í þeim? Veturinn er tími undirbúnings, framkvæmdir sumarsins byggja á því sem hefur verið undirbúið. Markviss sýn, öflug rök og ódeigur andi veita aðhald sem gefur einu vonina fyrir breyttar aðstæður svo ráðuneyti, stofnanir og umhverfismat verði markvissari og mikilvægari en raun ber nú vitni. Ekki veitir af.

Friðrik Dagur Arnarson