Leiðrétting frá ritnefnd v/ mistaka í fundargerð í Ýli

Landvarðafélagi Íslands hefur borist réttmæt ábending um að ekki sé farið rétt með staðreyndir í fundargerð síðasta aðalfundar félagsins, sem birt var í nýjasta tölublaði Ýlis. Á fundinum var rætt um aðkomu Landvarðafélagsins að námskeiðum UST fyrir verðandi landverði, og m.a. var það nefnt að félagið hefði ekki verið fengið að undirbúningi síðasta námskeiðs. Þau leiðu mistök áttu sér þó stað að í fundargerð var ritað: „…landverðir komu hvergi nærri undirbúningi eða kennslu…“ – þar sem hefði átt að standa: „… Landvarðafélagið…“.

Það er nú svo að margir landverðir tala um „landverði“ þegar þeir eiga við „Landvarðafélagið“, og því miður rataði þessi ruglingur inn í fundargerð. Þetta kennir okkur að vanda okkur betur og hafa það sem sannara reynist. Stjórn félagsins og ritnefnd er fullkunnugt um aðkomu einstakra landvarða að undirbúningi námskeiða og er alls ekki meiningin að kasta í nokkru rýrð á þau störf, nema síður sé. Þar voru m.a. á ferð nokkrir af okkar vönustu landvörðum sem engum dettur í hug að hafi skilað öðru en fyrsta flokks vinnu.
Gagnrýni sem fram hefur komið á síðasta námskeið byggir á þeirri skoðun margra landvarða að námskeiðin séu gagnlegri ef landverðir eru nýttir með sérfræðingum sem flytja fyrirlestur, til að skapa meiri tengingu milli fræðanna og starfa landvarða. Samstarf stofnunarinnar og félagsins um þetta hefur verið í gangi undangengin ár, en aðeins að takmörkuðu leyti síðast. Gagnrýni á námskeiðið hefur beinst að þessu atriði, en ekki að einstökum fyrirlestrum eða fyrirlesurum á námskeiðinu, enda vitað að þar var margt mjög vel gert og virkilega fagmannlega staðið að verki.
Beðist er velvirðingar á þessum leiðu mistökum, sem ritnefnd tekur fulla ábyrgð á. Við biðjum sérstaklega alla hlutaðeigandi velvirðingar á þessu og vonum að svona lagað endurtaki sig ekki – vöndum vinnubrögðin.

Ritnefnd