Landvörður vikunnar, 1. – 7. júní

mynd

Nú er sumarið að hefjast og landverðir farnir að skjóta upp kollinum í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Til þess að tengja betur saman landverði á mismunandi svæðum höfum við í stjórninni ákveðið að birta stutta umfjöllun í formi spurninga og svara um einn landvörð í hverri viku í sumar. Við stefnum á að þessi liður, sem við nefnum Landvörður vikunnar, birtist á síðunni okkar vikulega fram að ágústlokum. Við hvetjum landverði þessa lands að fylgjast með, bæði gæti einhver á þinni starfstöð orðið landvörður vikunnar en einnig er stórskemmtilegt að kynnast viðhorfum og áliti nýrra landvarða um landið.

mynd


       1. til 7. júní fær Hrafnhildur Ævarsdóttir þann heiður að vera landvörður vikunnar.

   Hrafnhildur starfar í Skaftafelli og er trúnaðarmaður suður- og vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

  

 

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi? Allt sem til fellur í rauninni en það margt sem við þurfum að takast á í starfi okkar sem landverðir, frá viðhaldi göngustíga og fara í fræðslugöngur með ferðamenn til þrifa á ævintýralegum klósettum. Tala nú ekki um að senda fálka með strætó til Reykjavíkur! Besta mottóið sem allir landverðir ættu að tileinka sér er að við göngum í allt og það er ekkert sem heitir þetta er utan míns verkahrings.

 

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður? Sumarið í ár verður mitt fimmta sem landvörður í Skaftafelli.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið? Landvarðarstarfið gefur mér tækifæri til þess að vinna og stunda útivist á einum fallegasta stað Íslands ásamt því að vera í daglegum samskiptum við áhugaverða og skemmtilega ferðamenn alls staðar að úr heiminum.

 

…en leiðinlegast? Að blotna alveg í gegn þrátt fyrir veglegan pollagallann! Nei svona án gríns þá finnst mér ekkert leiðinlegt við landvarðarstarfið.

 

Hvert er uppáhalds fjallið þitt? Frá unga aldri hefur það verið Skessuhornið en eftir að ég hóf störf sem landvörður í Skaftafelli þá þykir mér alltaf vænna og vænna um Kristínartinda.

 

Hvert er uppáhalds blómið þitt? Jakobsfífill og Eyrarrós.

 

Hver er frægasta manneskjan sem þú hefur hitt í þínu starfi sem landvörður? Tja, góð spurning – ætli það væru ekki Paul Bettany eða Gabriel Macht.

 

Ef þú gætir unnið sem landvörður hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vilja vinna? Má segja alls staðar? Ég myndi vilja prófa að vinna sem landvörður út um allan heim en ætli draumastaðan væri ekki Galapagos eyjar eða Madagaskar.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður? Landverðir vernda, viðhalda, fræða og náttúrutúlka og eru fyrst og fremst alltaf til taks í hvaða verkefni sem er!