Landverðir og náttúruvernd – Viðburður

Félagar í Landvarðafélagi Íslands veita innsýn í heim landvarða í erindi á Ljósmyndasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 8. september kl. 16:00-17:00. Þær Nína Aradóttir, formaður Landvarðafélags Íslands og doktorsnemi í jöklajarðfræði, og Júlía Björnsdóttir, landvörður í Öskju og framhaldskólakennari, munu fjalla um mikilvægi náttúrutúlkunar þegar kemur að náttúruvernd og segja skemmtilegar sögur frá landvarðasumrinu í einstakri náttúru Íslands. Auk þess fjalla þær um áskoranir tengdar utanvegaakstri sem er fyrirferðarmikið viðfangsefni í starfi landvarða.

Erindið tengist yfirstandandi sýningu Ljósmyndasafns Reykjavíkur sem ber heitið Landvörður eftir Jessicu Auer sem hefur fengist markvisst við myndræna skrásetningu á áhrifum fjöldaferðamennsku á íslenskt landslag og samfélag. Á undanförnum árum hefur Jessica ferðast um landið með stórformats myndavél til að taka portrettmyndir af landvörðum og öðrum þeim sem sinna gæslu á svæðum sem eru viðkvæm fyrir ágangi. Þessi samskipti gáfu tækifæri til að spjalla um gildi menningar og náttúru í íslensku landslagi.

Sýningin Landvörður, með sínum portrettmyndum, landslagsljósmyndum og myndböndum, er hugleiðing um þá samábyrgð sem Íslendingar og gestir landsins bera við að vernda þessa einstöku náttúru, og veltir einnig upp spurningum um þá þversögn sem felst í því að reyna að vernda sömu svæði og ferðamannaiðnaðurinn leitast við að nýta.

Viðburðurinn er ókeypis og öll áhugasöm eru velkomin. Safnið er opið til kl. 18:00 og gestum gefst tími til að njóta sýningarinnar að erindi loknu. Erindið er hluti af Fléttu Borgarsögusafns, viðburðaröð þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.Nánar um sýninguna: https://borgarsogusafn.is/…/syn…/jessica-auer-landvordur. Sýningin stendur til 11. September 2022.

Meðfylgjandi ljósmynd: Jessica Auer