Landvarsla 2008 – UST

ust

ustUmhverfisstofnun auglýsir eftir starfsfólki til landvörslu á eftirtöldum stöðum sumarið 2008:

Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, Friðlandi að Fjallabaki, Mývatnssveit, Vatnsfirði, Gullfossi og Geysi, Dyrhólaey, Hornströndum og friðlýstum svæðum á Vesturlandi (svæðalandvarsla). Náttúruverndarsvæðin lúta öll stjórn Umhverfisstofnunar en ýmist er starfsfólk eitt við landvörslu eða undir stjórn yfirlandvarðar eða þjóðgarðsvarðar viðkomandi svæðis.
Störf landvarða á framangreindum svæðum felast m.a. í að fylgjast með að á svæðinu séu ekki brotin ákvæði friðlýsingar svæðisins og lög um náttúruvernd, sjá um vöktun umhverfisþátta, móttöku gesta, veita upplýsingar og fræða gesti, halda við merktum gönguleiðum, sjá um gönguferðir og fræðslustundir og vera viðbúnir ef slys bera að höndum.  Störf landvarða eru frekar skilgreind í sérstökum erindisbréfum.

Umsækjendur sem lokið hafa landvarðanámskeiði ganga fyrir um störf. Að öðru leyti verða eftirfarandi kröfur um þekkingu, reynslu og hæfni hafðar til viðmiðunar við val á starfsfólki:

• Reynsla af landvörslustörfum eða áþekk reynsla
• Íslenskukunnátta
• Góð tungumálakunnátta, einkum í ensku og Norðurlandamáli. Frekari tungumálakunnátta er   kostur
• Ökuréttindi
• Æskilegt að umsækjendur hafi náð 20 ára aldr
• Reynsla af útivist og náttúrutúlkun er kostur
• Sýnir lipurð í mannlegum samskiptum

Í öllum tilfellum eru um að ræða 100% tímabundin störf. Starfstími er breytilegur eftir svæðum, þeir fyrstu hefja störf í lok apríl og sumstaðar lýkur landvörslu ekki fyrr en í september. Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Starfsgreinasambandsins.
Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.
Næstu yfirmenn landvarða eru: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Þjóðgarðinum Snæfellsnesi, Jón Björnsson, friðlandinu Hornströndum, Elva Guðmundsdóttir, verndarsvæðinu við Mývatn og Laxá og Ólafur A. Jónsson, utan framangreindra svæða.
Æskilegt er að umsóknum sé skilað á sérstökum umsóknareyðublöðum fyrir störfin, sem hægt að nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar (www.ust.is) og í móttöku hennar að Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Umsóknir skulu sendar á netfangið ust@ust.is eða á Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík, eigi síðar en 25. mars 2008. Nánari upplýsingar um Umhverfissstofnun, náttúruverndarsvæðin og starfstímabil er að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.ust.is.  Einnig er hægt að leita upplýsinga hjá Ólafi A. Jónssyni, sérfræðingi og Sigrúnu Valgarðsdóttur starfsmannastjóra, síma 591 2000. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðstöfun starfanna liggur fyrir.