„Klípusögur“

Hér fara á eftir nokkrar sögur af því sem landverðir hafa lent í í gegnum tíðina.

Settu þig í spor landvarðar:

  • Þú kemur að fólki sem hefur lagt bíl sínum í vegarkanti og borið dótið sitt niður að lítilli tjörn og tjaldað þar á bakkanum. Þú ert vörður á friðlýstu svæði og því ferð þú til fólksins til að segja því að óheimilt sé að tjalda þarna. Það verði að færa sig inn á tjaldsvæðið. Klukkan er níu að kvöldi og íslenska stórtjaldið blasir við á áberandi stað. Þetta eru mjög elskuleg, eldri hjón sem verða alveg eyðilögð að heyra um þessa reglu. Þau hafa ekki komið í þessa sveit síðan í brúðkaupsferðinni fyrir 40 árum, en þá gistu þau á nákvæmlega sama stað. Þau langar mjög til að fá að vera þarna áfram en eru ekki með neina frekju í því sambandi. Hvað gerir þú? Kemur þú í veg fyrir að indælisfólk fái að endurupplifa rómantík æskunnar, af því að þú ert opinber vörður laga og reglna? Er til einhver lausn?

  • Þú ert að vinna í Skaftafelli. Upp að Skaftafellsbæjunum liggur mjór vegur sem ekki ber neina umferð nema heimamanna. Til þín kemur bæklaður maður í hjólastól og með hækjur. Hann kynnir sig sem fararstjóra Félags fatlaðra ferðamanna. Þeir séu að skoða Skaftafell en hafi orðið frá að hverfa á göngustígunum upp frá tjaldsvæðinu. Hann spyr hvort ekki sé í lagi að þeir aki veginn upp brekkurnar. Þú spyrð hvað þeir séu margir og á hve stórri rútu. Hann segir þá vera á 40 einkabílum. Þú veist að það eru engin stæði fyrir 40 bíla þarna uppi og að ef allur þessi fjöldi fer upp, þá munu eigendur hinna 137 bílanna á svæðinu krefjast þess sama og fylgja í kjölfarið með ógurlegum afleiðingum og jafnvel slysum því vegurinn liggur víða fram á gilbrúnum. Hins vegar er það skylda þín að auðvelda fólki för um garðinn og hann er þjóðareign sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að og geta notið. Hvað gerir þú?
  • Þú ert yfirlandvörður á friðlýstu svæði. Á hluta svæðisins er mikill uppblástur. Þú ert á eftirlitsferð og sérð þá allt í einu nokkra bíla sem eru komnir út á uppblásturssvæði. Hjá bílunum er hópur fólks eitthvað að starfa. Þú ferð til þeirra og kemst að því að þarna eru á ferð félagar í Lionsklúbbnum Græna höndin ásamt sjálfboðaliðum úr sveitinni í gróðursetningarferð. Verið er að sá lúpínu og planta grenitrjám. Þú hugsar með þér að ekki sé gott að menn aki svona út fyrir veg og þessar plöntur eigi ekki heima á friðuðu svæði. Hvernig bregst þú við? Hver eru rök þín?

  • Það er Verslunarmannahelgi, aðfaranótt sunnudags og Íslendingar víða að skemmta sér. Klukkan er langt gengin í þrjú og illa gengur að fá fólk til að skilja hversu hljóðbært er á tjaldsvæðinu. Þú er þegar orðinn nokkurs vísari um ýmis persónuleg málefni tjaldgesta sem venjulega er ekki ætlast til að berist víða. Þú ert hins vegar sómakær landvörður og gætir þess að gleyma því öllu jafnharðan. Skyndilega upphefst mikill gleðskapur á tjaldsvæðinu miðju. Þar er á ferðinni afar hress hópur ungra Íslendinga að ,,skemmta sér”. Þeir eru mitt á meðal Þjóðverja sem eru teknir að vakna. Þér gengur hins vegar ekkert að þagga niður í samlöndum þínum, enda taka þeir þig ekki mjög hátíðlega á þessari stundu. Eftir um það bil tvær klukkustundir snýst Bakkus á þína sveif og leggur gleðifólkið til náða. Upp úr klukkan sex um morguninn fara Þjóðverjarnir á kreik eins og venjulega og þá færð þú yfir þig skammirnar. En þeir voru sjálfir ekki alveg saklausir, því þegar þeir voru að fá sér Sauerkraut og Bratwurst í morgunmat vöktu þeir hóp saklausra Frakka, sem gistu þarna við hliðina.
  • Þú ert nývaknaður og á rölti um tjaldsvæðið. Þú ert að fylgjast með stórum hópi ferðafólks sem kom daginn áður frá Austfjörðum og er nú að búast til brottferðar. Skyndilega verður þú vör við að ferðamennirnir eru að létta á mal sínum og losa sig við aðskiljanlegasta grjót sem greinilega á ættir sínar að rekja til Austurlands. Þetta er líparít, gult, grænt og bleikt og blágrýtishnullungar sem höfðu aðdráttarafl þar sem þeir lágu í náttúrunni, en glötuðu því líkt og fyrir tilverknað galdra um leið og þeir voru komnir í vasann. Þú gerir þeir grein fyrir að hópurinn ætlar að skilja þetta ,,einskisnýta” grjót eftir hér á tjaldsvæðinu. Hvað skal gera? Best væri auðvitað að senda hópinn til baka með grjótið og skila því á sama stað, en hvar sá staður er veit enginn lengur. Hvað skal taka til bragðs?

  • Þú ert vörður í Vesturdal. Dag nokkurn sérð þú til fólks sem er að rogast með stuðla úr Hljóðaklettum. Þú stoppar fólkið og segir því að grjótið í þjóðgarðinum sé friðað ekki síður en annað og grjótburðurinn sé því með öllu óheimill. Fólkið þykist koma af fjöllum og segist vita til þess að aðrir hafi sótt sér stuðla til að setja í garðinn hjá sér, án þess að neinar athugasemdir væru gerðar. Þar að auki séu þau búin að bera grjótið langa leið og því vilji þau höfða til þíns betri manns hvort þú viljir ekki sjá aumur á þeim og leyfa þeim að fara með steinana. Þeir hafi legið þarna og nóg sé eftir af fallegu grjóti. Þegar þau sjá hik á þér, segjast þau meira að segja vera tilbúin að borga svolítið fyrir steinana, hvort ekki vanti alltaf peninga til að lagfæra göngustíga og gera skilti. Loks segir fólkið að þér væri nær að fara og tala við útlenskan fararstjóra sem sé að brjóta stuðla úr loftinu í Kirkjunni þrátt fyrir að þau segðu honum að hætta. Hvar er nú til ráða?
  • Það kemur 10 manna gönguhópur inn á tjaldsvæðið hjá þér í Ásbyrgi. Þau eru í vanda, bíllinn sem fylgir þeim með vistir er olíulaus uppi á heiði. Landverðir eyða hálfri nóttinni við að koma honum til byggða. Í spjalli við hópinn daginn eftir kemur í ljós að þau hafa tjaldað í Hólmatungum, en það er algjörlega bannað. Þaðan er um 3 tíma gangur að tjaldsvæðinu í Vesturdal. Þú bendir þeim á að þetta sé óleyfilegt og þau verði að borga fyrir gistingu þarna eins og annars staðar í þjóðgarðinum. Þetta þykir þeim í meira lagi ósanngjarnt og benda á að hefðu þau ekki sagt þér frá þessu hefðir þú aldrei fengið að vita þetta. Þau langi því að vita hvort þú ætlir að refsa þeim fyrir að segja sannleikann. Þá sé tjaldgjaldið miðað við það að þú fáir þjónustu, sem þau hafi sannarlega ekki fengið þarna. Hvaða afstöðu tekur þú, hvað er sanngjarnt?
  • Á fögru síðkvöldi kemur rúta með útlendinga á tjaldsvæðið þitt. Fólkið hafði komið síðdegis og tjaldað hjá allbrattri hlíð með lágvöxnu birkikjarri, örskammt frá kömrum og krönum með kalda vatninu. Fararstjórinn gengur í það að elda kvöldmat, en margir farþeganna drífa sig í gönguferð upp í hlíð. Ýmsir gefa þessu auga. Skyndilega er sem spryngi út fjöldi fölbleikra risablóma á milli trjánna. Þú áttar þig strax á því að þarna skín í nakta þjóhnappa gestanna sem eru að létta á sér í föstu og fljótandi. Birkið verndar þá fyrir augnagotum hvers annars, en þeir átta sig ekki á því að þeir blasa við fólki á tjaldsvæðinu. Sumir áhorfenda glotta, svo þú veltir fyrir þér hvort þú átt að líta á atburðinn sem spaugilega uppákomu og láta þar við sitja þar til á morgun og fara þá og þrífa svæðið. En þú heyrir líka gagnrýnisraddir, auk þess sem þú hugsar til þess með kvíða hvernig umhorfs er nú í berjalynginu fagra. Hvað gerir þú?