Íslendingar á ráðstefnu um umhverfistúlkun í USA

amerikuferd

amerikuferdDagana 13.-17. nóvember 2012 var árleg ráðstefna National Association for Interpretation haldin í Hampton í Virginíu, Bandaríkjunum. Rétt tæplega 600 manns sóttu ráðstefnuna og þar á meðal voru sex Íslendingar. Þátttaka Íslendinganna var hluti af þriggja vikna námsferð sem farin var til Bandaríkjanna á vegum Samfélagssjóðs Alcoa (Alcoa Foundation).

National Association for Interpretation (NAI) er eins og nafnið bendir til landssamtök þeirra sem starfa við umhverfistúlkun eða hafa sérstakan áhuga á henni. Meðumhverfistúlkun er þá sameiginlega átt við náttúrutúlkun og menningarminjatúlkun. Meðlimir samtakanna eru ríflega 5.000 talsins, flestir í Bandaríkjunum, þar sem samtökin eru staðsett, en einnig má finna meðlimi í Kanada og meira en 30 löndum til viðbótar. Meginmarkmið samtakanna er að auka veg og virðingu umhverfistúlkunar sem starfsgreinar.

Ráðstefnan stóð í fimm daga. Fyrsta daginn gátu þátttakendur valið á milli þess að sitja námskeið um notkun samfélagsmiðla við umhverfistúlkun eða að fara í vettvangsferð til Colonial Williamsburg. Næstu tvo daga sátum við svo fyrirlestra og urðum að velja úr því 10-12 fyrirlestrar fóru fram samtímis. Voru fjórar þannig lotur hvorn daginn og því einungis hægt að hlýða á átta fyrirlestra af um 90 sem í boði voru. Var því vandi að velja úr þegar 2-4 fyrirlestrar sem manni þóttu áhugaverðir fóru fram samtímis, en við Íslendingarnir reyndum þó í einstaka skipti að skipta okkur niður þannig að við sem hópur fengjum sem breiðasta innsýn í efnið.

amerikuferd2Fyrirlestrarnir nálguðust umhverfistúlkun frá mjög víðu sjónarhorni. Flestir voru mjög áhugaverðir og það var einkennandi hvað flytjendurnir voru faglegir í efnisflutningi. Áheyrendur voru líka vel með á nótunum og oft spannst áhugaverð umræða í fyrirlestarsalnum út frá efninu. Til að gefa hugmynd um innihald fyrirlestrana má nefna heiti nokkurra þeirra: Rangers and Race; Reflecting on Too Many Themes; Interpretive Writing; Wilderness Survival Essentials; Climate Change Without Depression or Politics; Interpretive Solutions to Critical Resource Issues; og But Does it Work? The Influence of Social Media Usage on Interpretive Outcomes and Place Attachment. (Dagskrá ráðstefnunnar er því miður ekki lengur aðgengileg á netinu og því ekki hægt að vísa í hana hér.)

Tvö meginstef í fyrirlestrum höfðu hvað mest áhrif á mig. Það fyrra tengdist notkun samfélagsmiðla í umhverfistúlkun, en fyrirlesarar voru allir á því máli að mikilvægt væri að nýta það tækifæri sem í samfélagsmiðlum felst til að koma boðskap umhverfistúlkunar á framfæri. Einn þeirra gat jafnframt vísað í rannsókn sem hann hafði gert sem studdi þá tilgátu að samfélagsmiðlar hefðu mikilvægu hlutverki að gegna í umhverfistúlkun. Það er því fyllilega þess virði fyrir þá sem á þessu sviði starfa að fylgjast með þróuninni.

Seinna stefið snéri að umhverfistúlkun í texta, en þar fór fremstur í flokki fyrirlesara Alan Leftridge (http://www.leftridge.com/Biography.html). Hann fjallaði um hvernig mönnum hættir til að troða of miklum upplýsingum og fræðslu í texta (og þar fann undirritaður skömmina hellast yfir sig) þar sem áhrifaríkara væri að snerta á fáeinum atriðum sem hefðu tilfinningaleg áhrif á lesanda textans. Það má hiklaust mæla með bók Alans, Interpretive Writing, fyrir þá sem koma að miðlun til ferðamanna, en einnig má benda á bók Sigþrúðar Stellu Jóhannsdóttur, Náttúrutúlkun – handbók, sem kom út hjá Náttúrustofu Norðausturlands árið 2011.

Fjórða daginn var farið í vettvangsverð á ýmis friðlýst svæði. Við Íslendingarnir fórum til Jamestown (Historic Jamestowne) og Yorktown (National Battlefield) en báðir þessir staðir eru í umsjá Þjóðgarðsstofnunar Bandaríkjanna og hluti af Colonial National Historical Park. Þeir gegndu mikilvægu hlutverki í sögu Bandaríkjanna: Jamestown var fyrsta varanlega landnám Englendinga í N-Ameríku og í Yorktown voru háðir mikilvægir bardagar, bæði í Sjálfstæðisstríðinu og Þrælastríðinu.

Í Jamestown fengum við m.a. að kynnast því hvernig einkaaðili kemur að fornleifauppgreftri og gestastofu sem gerir grein fyrir sögunni sem falin er í jörðinni. Þetta er kannski eitt af því sem einkennir Bandaríkin; ýmis einkasamtök og samfélagssjóðir starfa að málefnum tengdum náttúru, menningu og sögu, og allt byggir það á framlögum einstaklinga og fyrirtækja. (Skattaívilnanir spila þar stórt hlutverk án þess þó að gert sé lítið úr einlægum áhuga þeirra sem styrkja málefnin.) Heimsókin til Yorktown var allt annars eðlis. Þar gafst betri tími til að skoða gestastofu staðarins, en einnig fórum við í fræðslugöngu með landverði og fengum þrumandi fyrirlestur um orustuna sem átti sér þarna stað í Sjálfstæðisstríðinu.

Fimmta og síðasti dagurinn hófst með fyrirlestrum en í hádeginu var veisluhlaðborð og verðlaunaafhending fyrir þá þóttu hafa skarað fram úr í umhverfistúlkun. Þessi dagskrá fór því miður að mestu framhjá okkur þar sem við þurftum að komast tímanlega á flugvöllinn í Washington D.C.

Það er engum vafa undirorpið að þátttakan í ráðstefnunni var mjög gagnleg fyrir okkur sem hana sóttu og vonandi mun það skila sér í starfi okkar hér heima á Íslandi. Sem fyrr segir þá gátum við sótt áhugaverða og gagnlega fyrirlestra, og það var líka mikils virði að sjá í verki hvernig Bandaríkjamenn standa að sinni umhverfistúlkun og fræðslu. Var m.a. reynt að taka mið af því við skipulagningu dagskrár landvarða í Skaftafelli nú í sumar.

amerikuferd3Fleira vannst með þátttökunni, en það var að sjá og kynnast öðrum ráðstefnugestum, bæði óformlega og í skipulagðri dagskrá. Sérstaklega var gaman á kvöldvökum sem haldnar voru milli ráðstefnudaga, en þar kom fólk saman til að spila og syngja. Margir höfðu meðferðis hljóðfæri: gítara, banjó, fiðlur, blásturshljóðfæri og ýmis slagverk, og fluttu m.a. þjóðlög og frumbyggjasöngva. Við Íslendingarnar vorum án hljóðfæra en létum

það ekki stöðva okkur: sungum saman “Á Sprengisandi”, auk þess sem Helga Árnadóttir, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs, söng ein og óstudd vögguljóð. Bandaríkjamennirnir sýndu okkur mikla gestrisni og lofuðu sönginn í hástert. Þóttumst við því hafa komist sómasamlega frá þessu.

Í ár verður ráðstefna NAI haldin í Reno, Nevada, 5. – 9. nóvember. Einnig stóð NAI að alþjóðlegri ráðstefnu ásamt Interpret Europe og Centrum för naturvägledning í Sigtuna í Svíþjóð 15. – 19. júní s.l. Nánari upplýsingar um hana má finna hér. Það er von mín að þessi pistill kveikji áhuga hjá einhverjum til að sækja ráðstefnur af þessu tagi í framtíðinni. Tel ég sjálfur í það minnsta óhætt að mæla með ráðstefnu NAI í Bandaríkjunum.

Guðmundur Ögmundsson

aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og félagi í

Landvarðafélagi Íslands.