Haustferð landvarðafélagsins 28.-29. september

Haustferð Landvarðafélagsins í Laka
Dagana 28. – 29. september verður farið í haustferð Landvarðafélagins. Stefnan er sett á mesta hamfarasvæði Íslandssögunnar, Lakagíga. Lagt verður af stað snemma að morgni laugardags og þaðan keyrt með sem fæstum stoppum beint á Kirkjubæjarklaustur. Á Klaustri verður ekki farið á bar heldur haldið í Gestastofuna þar sem mosasýningin verður skoðuð og horft á stuttmynd um Skaftárelda. Eftir það verður lagt af stað upp í Laka. Þar verður svæðið kynnt, skoðað og notið með landvörðum seinustu ára af svæðinu. Dagurinn endar svo í Blágiljum þar sem verður komið sér fyrir og notið kvöldsins saman. Sunnudagurinn verður svo skipulagður eftir veðri og orku hópsins. En stefnt verður að því að koma til baka til Reykjavíkur ekki mjög seint á sunnudagskvöldið.  

Flutningur á svæðið
Landvarðafélagið mun bóka rútu. Vegurinn inn á svæðið er ekki fólksbílafær og á haustin er hann ekki ákjósanlegur fyrir lága jepplinga. Ef rignir mjög mikið dagana fyrir þá geta vöð einnig verið ófærð fyrir stærstu bíla. Við erum aftur á móti svo heppin að inní Laka hefur eðal bílstjóri keyrt í mörg ár og hann ætlar að keyra okkur í þessari ferð. 

Gisting
Gist verður í skálanum í Blágiljum og einu umtalaðsta landvarðahúsi landsins. Þarna er einnig ljómandi fínt tjaldstæði á svæðinu. Ef aðsóknin verður svo mikil þá er möguleiki á að færa sig í annan aðeins stærri skála. Við ætlum aftur á móti að reyna að vera í Blágiljum. Við gætum því kannski beðið vant útilegufólk að taka með sér dýnu og kannski tjald svo hægt sé að nýta allt pláss.
 Ef haustið heldur áfram að vera gott þá verður ennþá vatn á öllu svæði annars verður notast við vetrarsalerni sem komast öll á huglægt kamarsafn landvarða. Það er einnig nauðsynlegt að vera með góðan svefnpoka þar sem takmörkuð hitun er í skálanum en hitinn af hvort öðru dugar nú að mestu. 

Kostnaður
Landvarðafélagið mun niðurgreiða ferðina að hluta en Vatnajökulsþjóðgarður sem sér um skálann í Blágiljum mun ekki rukka fyrir gistingu en við gætum þurft að þrífa aðeins betur en venjulegir gestir í staðnum. Kostnaðurinn mun því fyrst og fremst verða flutningur og matur um kvöldið og landvarðalummur í morgunmat. Verð er 5500 kr fyrir félaga og 7500 kr fyrir aðra. 

Af hverju að fara í Laka?
Fyrir utan jarðfræðilega og sögulega sérstöðu svæðisins eru hlutfallslega fáir Íslendingar og landverðir sem hafa komið í Laka. Einnig hefur landvarslan í  kring um Lakagíga verið í mikilli þróun seinustu ár. Í dag er þarna mjög fræðslumiðuð landvarsla og mikil óbein og bein stjórnun umferð gesta. Lakagígasvæðið hefur ákveðna sérstöðu í landvörslu sem áhugavert verður að kynna sér með reyndum landvörðum af svæðinu. Þetta ætti því ekki einungis að vera skemmtiferð á stórmerkilegu svæði heldur einnig áhugavert út frá starfsemi landvarða. 

Skráning
Til þess að skrá sig í þessa snilld þarf að senda tölvupóst á landvardafelagid@gmail.com fyrir 22. september, ásamt því að greiða fyrir ferðina. Vinsamlega takið fram hvort þið eruð meðlimir í landvarðafélaginu og ef þið eruð með sérþarfir varðandi mat.

Reikningsnúmer: 0526-26-431785
kt. 460684-0649