Fundur stjórnar Landvarðafélags Íslands og Umhverfisstofnunar 21. september 2009.
Mættar fyrir hönd LÍ: Ásta Rut Hjartardóttir og Þórunn Sigþórsdóttir
Fyrir hönd UST: Ólafur Jónsson og Sigrún Valgarðsdóttir.
Staðan eftir sumarið:
Í sumar störfuðu 16 landverðir í 152 vikur á vegum Umhverfisstofnunar (UST). Stofnunin tók upp á þeirri nýbreytni í sumar að hafa svokallaða svæðalandvörslu, þar sem landvörður (eða landverðir) eru staðsettir á ákveðnu svæði en hafa einnig önnur svæði til umsjónar. Landvarsla sumarsins gekk að mestu vel hjá UST.
Gullfoss – Geysir – Enginn landvörður var staðsettur við Gullfoss og Geysi í sumar en landverðir sem störfuðu á Friðlandinu á Fjallabaki kíktu reglulega þangað. Verkamenn voru að störfum á svæðinu og gekk það vel.
Hveravellir – Guðlaugstungur – Þjórsárver – Töluvert vannst af verkum á Hveravöllum í sumar. Ef niðurskurður verður í landvörslu að ári, þá er hins vegar töluverð hætta á að sá niðurskurður muni bitna á þessu svæði.
Borgarbyggð – Mikið var af framkvæmdum á svæðinu og almenn ánægja hjá heimamönnum með að hafa landvörð.
Mývatn – Laxá – Á þessu svæði er mikið álag og of fáir landverðir til að takast á við það. Í sumar varð áherslubreyting á starfsemi UST á svæðinu. UST lagði meiri áherslu á að svæðum sem eru friðlýst væri sinnt, en lagði aftur á móti minni áherslu á svæði sem eru ekki friðlýst, s.s. Dimmuborgir og Leirhnjúk.
Snæfellsnes – Landvarsla gekk vel á Snæfellsnesi í sumar. Hugsanlegt er að vinnutíma á svæðinu verði breytt þannig að landverðir vinni ekki einungis dagvinnu frá 8-18, heldur verði hægt að hafa landverði við störf á kvöldin.
Vatnsfjörður – Landvarsla gekk vel á þessu svæði samkvæmt því sem landvörður svæðisins segir, og fulltrúar UST hafa ekki heyrt annað en það.
Hornstrandir – Þjónustuhús fyrir landverði var sett upp á Hornströndum í sumar. Landverðir eru þar með komnir með hús í Hornvík, smá herbergi með koju og eldunaraðstöðu. Sjálfboðaliðar unnu einnig á svæðinu í sumar.
Vestmannaeyjar – Hugsanlega verður um 10% niðurskurður á næsta ári á þessu svæði.
Á Reykjanesi var ekki ráðinn landvörður í sumar. Sveitafélagið réð hins vegar verkamenn í vinnu. Fulltrúar UST telja ólíklegt að landvörður verði ráðinn á þetta svæði næsta sumar.
Fjárframlög til landvörslu
Töluverðar líkur eru á að niðurskurður verði á fjárframlögum til landvörslu næsta sumars. Fulltrúar UST ræddu um að ef til þess kæmi, þá yrðu Fjallabak, Snæfellsnes og Mývatn í forgangi og að þeir vildu helst ekki að skorið yrði niður á þeim svæðum.
Borgarlandvarsla
Umhverfisstofnun er að huga að því að ræða við Reykjavíkurborg um að ráða borgarlandvörð.
Fatnaður
Engar kvartanir bárust til UST um fatnað landvarða þetta sumarið.
Þórunn gerði athugasemd um að að starfsmenn Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls væru ekki merktir þjóðgarðinum heldur einungis UST. Vel var tekið vel í að bæta úr þessu.
Þórunn óskaði einnig eftir því að landverðir sem ætla að sækja alþjóðaráðstefnu landvarða í Bólivíu í nóvember fái lánuð föt frá UST og var það auðsótt mál.
Landvarðanámskeið
Ákveðið hefur verið að landvarðanámskeið verði haldið í byrjun febrúar 2010, búið er að fá Jón Björnsson landvörð á Hornströndum til að halda utan um námskeiðið. Námið byggist bæði upp á staðar- og fjarnámi. Kallaður verður saman vinnuhópur fljótlega og verður fulltrúi frá L.Í. þar á meðal. Kostnaður á nemenda kemur til með að vera um eða yfir 100 þúsund krónur.
Töðugjöld
Búið er að ákveða að töðugjöld Umhverfisstofnunar verði föstudaginn 2. október.
Fundarritari:
Ásta Rut Hjartardóttir