Fræðsluerindi HÍN um lundastofninn í Vestmannaeyjum

lundi-i-holu_300x

lundi-i-holu_300x

Vakin er athygli á fræðsluerindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.

„Fortíð, nútíð og framtíð lundastofns Vestmannaeyja.“

Dr. Erpur Snær Hansen, líffræðingur við Náttúrustofu Suðurlands, heldur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt mánudaginn 26. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip af erindi Dr. Erps S. Hansen líffræðings, haldið mánudaginn 26. apríl 2010.

Hlýskeið í sjónum sunnan og suðaustan við Ísland hófst 1996, metveiði í lunda var 1998 en síðan hefur veiðin verið á niðurleið. Samskonar mynstur er einnig að finna í lundaveiði í Færeyjum. Á síðustu 20 árum hefur orðið stofnhrun í sjófuglastofnum sem éta sandsíli við Ísland og Færeyjar. Varpárangur lunda í Vestmanneyjum hefur t.d. verið slæmur a.m.k. síðan 2005 sem tengdur er mikilli fækkun í sandsílastofninum. Í erindinu eru kynntar niðurstöður samstarfsverkefnis sem beinist að skýringum á gagnvirkum breytingum milli lunda- og sandsílastofnanna við Vestmannaeyjar. Ábúðarhlutfall, varpárangur, tímasetning varps og aldurshlutföll lunda í veiði hafa verið vöktuð síðan 2007 og verða niðurstöður skýrðar. Fjallað verður um tilgátuna um að lundaveiði endurspegli „fæðubundna átthagatryggð ungfugla“ eða magni 1-árs síla. Þessi tilgáta býður m.a. upp á túlkanir á langri lundaveiðisögu í samhengi við hafrænar breytingar fyrr og nú. Einnig verður fjallað stuttlega um yfirstandandi úrvinnslu á lífslíkum og árgangahlutföllum lunda byggt á merkingagögnum frá 1953.

Erpur Snær Hansen er fæddur 1966. Hann lauk B.S. námi 1993 og 4. árs námi í líffræði 1995 við Háskóla Íslands, M.S.- 1998 og Ph.D. námi 2003 í vist-, þróunar- og flokkunarfræði frá ríkisháskólanum í Missouri, St.-Louis. Erpur hóf störf við Náttúrustofu Suðurlands 2007 sem sviðsstjóri vistfræðirannsókna. Rannsóknir Erps hafa beinst að sjófuglum um árabil, sérstaklega í Vestmannaeyjum.

Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)