Frá 2010 hefur 16. september verið tileinkaður íslenskri náttúru en dagurinn er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar frétta- og þáttagerðarmanns sem hefur kynnt náttúruna á sinn einstaka hátt fyrir landi og þjóð.
Landvarðafélagið hvetur alla til allskonar útivistar í dag til að heimsækja náttúruna og óska henni til hamingju með daginn. Hér á Íslandi erum við enn svo lánsöm að þurfa ekki að fara langt til njóta náttúru eins og meðfylgjandi mynd af Rauðhólum sýnir. En mörg frábær útivistarsvæði eru í og við höfuðborgarsvæðið og það sama á við um landið allt.
Á þessum degi er áhugavert að velta fyrir sér sambandi manns og náttúru. En þar geta skrif Páls Skúlasonar veitt margþætta innsýn. Í bókinni Náttúrupælingar er að finna safn helstu greina hans um heimspeki náttúrunnar og setur Páll nýtingu og verndun náttúrunnar þar í áhugaverð samhengi. Til að mynda veltir hann því upp hvort að náttúran sé orðin að tæki í hugum okkar og þar af leiðandi sjáum við hana ekki öðruvísi nema með nýtingu í huga. Tæki nýtast til ákveðinna hluta þar til að þau gera það ekki og maðurinn á það til að veita tækjum aðeins athygli þegar þau t.d. virka ekki lengur. Páll bendir glögglega á að náttúran er hugtak sem við gefum merkingu og er þar af leiðandi afurð okkar ímyndunnar, því skiptir viðhorfið miklu máli þegar kemur að nýtingu hennar. Ef við lítum aðeins á náttúruna sem auðlind eða efni til að nota þá verður hún viðfang mannsins til að sigrast á og fullnýta. Í stað þess að viðurkenna og virða hana sem sjálfstætt afl.
Stjórn landvarðafélagsins óskar náttúrunni, félagsmönnum og öllum til hamingju með daginn og vonum að allir njóti dagsins með náttúrunni.