Búsvæði fugla og tjarnarklukku friðlýst

eo_Agabus_uliginosus-090109_sm

eo_Agabus_uliginosus-090109_smÁ vef Umhverfisstofnunar er sagt frá tveimur nýjum friðlýsingum.

Friðlýsing búsvæðis fugla í Andakíl. Á alþjóðlega votlendisdaginn þann 2. febrúar sl. undirritaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra friðlýsingu búsvæðis fyrir fugla í Andakíl í Borgarfirði. Sveitarfélagið Borgarbyggð, Landbúnaðarháskóli Íslands og landeigendur 13 jarða í Andakíl – Hvítárvalla, Grímarsstaða, Heggsstaða, Báreksstaða, Vatnshamra, Ausu, Neðri-Hrepps, Innri-Skeljabrekku, Ytri-Skeljabrekku, Árdals, Grjóteyrar, Grjóteyrartungu og Skógarkots – standa að friðlýsingunni. Mikil og góð samvinna var milli Umhverfisstofnunar og allra þessara aðila við undirbúning friðlýsingarinnar.

Nánar má lesa um friðlýsinguna í Andakíl á vef Umhverfisstofnunar.

Friðlýsing búsvæðis tjarnarklukku. Hin friðlýsingin lýtur að pödduríkinu en þann 10. febrúar sl. undirritaði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra friðlýsingu búsvæðis tjarnaklukku á Hálsum við Djúpavog í samræmi við Náttúruverndaráætlun 2009-13. Friðlýsingin var gerð með samþykki sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og landeigenda jarðarinnar Strýtu við Berufjörð, og varð Djúpavogshreppur þar með fyrst íslenskra sveitarfélaga til að samþykkja friðlýsingu svæðis til verndar smádýralífi. Við sama tækifæri gerðu Umhverfisstofnun og Djúpavogshreppur með sér samning um umsjón sveitarfélagsins með friðlýsta svæðinu.

Tjarnaklukka er ein fárra tegunda vatnabjallna sem finnast á Íslandi og hefur hvergi orðið vart á landinu nema á Hálsum ofan við Djúpavog. Í tjörnunum á Hálsum er að finna allar þekktar tegundir vatnaklukkna landsins, en þar er fjölbreytt og gróskumikið lífríki.

Til að tryggja verndun búsvæðisins á Hálsum er m.a. ætlunin að gefa út upplýsinga- og fræðsluefni sem varpar ljósi á mikilvægi verndunar hryggleysingja eins og tjarnaklukku í íslenskri náttúru.

Nánar um friðlýsingu búsvæðis tjarnarklukku á vef Umhverfisstofnunar