„Ert þú ekki aðeins of gömul til þess að vera í unglingavinnunni?“
Þann 31. júlí héldu landverðir um heim allan upp á Alþjóðadag landvarða í tíunda sinn. Dagurinn er haldinn til þess að minnast þeirra fjölmörgu landvarða sem hafa látist eða slasast í starfi. Að auki er hann haldinn hátíðlegur til þess að fagna starfi allra landvarða sem vinna sleitulaust við að vernda náttúru- og menningar verðmæti heimsins.
Margir landverðir lenda eflaust í því að vera spurðir út í starfið og hvað það feli í sér. Fyrst þegar ég reyndi að útskýra fyrir vinum og ættingjum fann ég að engin ein lýsing á við landvarðarstarfið í heild sinni. Störf landvarða eru afar fjölbreytt og vinna flestir landverðir eftir þeirri reglu að þeir þurfa að vera tilbúnir til þess að sinna hvaða verki sem er, hvenær sem er. Allt frá því að tína rusl (jú einmitt, klósettpappír ásamt öðrum ófönguði er ansi áberandi), sinna erfiðum björgunarstörfum, hvers kyns fræðslu og viðhalda gönguleiðum og merkingum. Eftir að hafa reynt að útskýra fyrir einum vini mínum landvarðarstarfið segir hann við mig hugsi: „Ert þú ekki aðeins of gömul til þess að vera í unglingavinnunni?“ Honum hefur greinilega fundist samhljómur í viðhaldsvinnu á göngustígum og ruslatínslu við unglingavinnuna.
Landverðir um heim allan vinna í þjóðgörðum og öðrum náttúruverndarsvæðum og í grunninn vinna að því sama – að vernda og fræða. Störf landvarða eru margþætt og er fjölbreytileiki einmitt það sem einkennir starfið. Fræðsla til gesta er mikilvægur hluti af starfinu ásamt því að sinna eftirliti og framfylgja að náttúruverndarlögum sé framfylgt (yfirleitt er hægt að þekkja landvörð á því að þeir afmá merki um uppáhalds iðju ferðamana af mikilli natni með einu góðu sparki í ólöglegar vörður sem ferðamenn hafa hlaðið hér og þar um landið). Með aukinni ferðaþjónustu á Íslandi er mikilvægt að fjölga landvörðum og gæta að viðkvæmum svæðum fyrir ágangi ferðamanna.
Landverðir standa vörð um landið, fræða mis velupplýsta ferðamenn, hlúa að landinu okkar og gæta að sérstöðu þess.
Hrafnhildur Ævarsdóttir, landvörður og í stjórn ERF (European Ranger Federation)