Alþjóðadagur landvarða 2017

WRD 2017

Landverðir fagna alþjóðadegi landvarða ár hvert 31. júlí.

Þessi dagur er fyrst og fremst til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Á sl. 12 mánuðum hafa 105 landverðir látið lífið við störf sem snúa að verndun náttúru og dýralífs. Flestir þeirra eru frá Afríku og Asíu þar sem landverðir eiga m.a. í stríði við veiðiþjóða og skógarhöggsmenn. En einnig er þessi dagur haldinn hátíðlegur til að fagna störfum landvarða um allan heim sem leggja sig alla fram við að vernda náttúru- og menningarleg verðmæti heimsins.

WRD 2017

Í tilefni dagsins bjóða landverðir víðsvegar um landið upp á gönguferðir og aðra viðburði.

 

             
SKAFTÁRHREPPUR
Landverðir Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs bjóða upp á þrjár gönguferðir í tilefni dagsins.

• Nunnur og tíminn í landslagi: Lagt af stað frá Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri kl. 9:00. Um 1 klst. ganga undir leiðsögn Guðbjargar Runólfsdóttur.

• Náttúruvættið Dverghamrar: Lagt af stað frá bílastæðinu við Dverghamra kl. 11:00. Um 1 klst. fræðsluganga um náttúru svæðisins undir leiðsögn Ástu Kristínar og Þuríðar Helgu.

• Ástarbrautin upp með Systrafossum að náttúruvættinu Kirkjugólfi. Lagt af stað frá Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri kl. 18:00. Um 2 klst. miðlungs erfið ganga þar sem gestir verða fræddir um störf landvarða, náttúru, sögu og blómin undir leiðsögn Ástu Kristínar og Jónu Bjarkar.

MÝRDALSHREPPUR
• Friðlandið Dyrhólaey: Lagt af stað frá bílastæðinu á Lágey kl. 14:00. Um 2 klst. miðlungs erfið ganga þar sem gestir verða fræddir um náttúru, sögu og störf landvarða undir leiðsögn Hákonar Ásgeirssonar og Helgu Hvanndal.

RANGÁRÞING YTRA
• Friðland að Fjallabaki: Lagt af stað frá skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum kl. 13:00. Um 2 klst. miðlungs erfið ganga þar sem genginn verður Laugahringurinn og gestir fræddir um náttúru svæðisins og störf landvarða. Einnig mun gestum gefast tækifæri til að leggja sitt af mörkum í verndun svæðisins. Leiðsögumenn verða landverðirnir Hringur, Kristín og Valdimar.

VESTURBYGGÐ
• Friðland í Vatnsfirði: Lagt af stað frá Hótel Flókalundi kl. 10:00 þar sem sameinast verður í bíla. Um 4 klst. miðlungs erfið ganga þar sem gengið verður í Lambagil. Gestum gefst tækifæri að gerast landvörður í einn dag með því að taka þátt í að laga göngustikur og grisja leiðina í gegnum skóginn. Leiðsögumenn verða landverðirnir Kristín Edda og Ragnhildur Helga.

 ————-

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs bjóða til fræðsluferða og viðburða í Snæfelli, Hvannalindum, Kverkfjöllum, Öskju og Drekagili, við Holuhraun og í Herðubreiðarlindum. Dagskráin er fjölbreytt og býður upp á mörg tækifæri til að fræðast um störf landvarða og framlag þeirra til verndar náttúru- og minningarminja á Íslandi, auk þess sem náttúru, jarðfræði og sögu hvers svæðis eru gerð skil í göngunum.

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs bjóða ykkur öll velkomin til að fagna deginum með okkur! Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs senda einnig kærar kveðjur til annarra landvarða á Íslandi og um heim allan.

Allar fræðslugöngur Vatnajökulsþjóðgarðs eru u.þ.b. ein klukkustund og fræðslan fer fram á íslensku eða ensku eftir atvikum.

DAGSKRÁ

alþjóðlegi landvarðadagurinn 2017

SNÆFELL

18:00     Kínversk te-athöfn af Gong Fu stíl

Landverðir bjóða gestum til tedrykkju og spjalls í skálanum við Snæfell.

20:00    Blóm og steinar

Náttúran við Snæfell, sem er bæði hrjóstrug og viðkvæm, er miðpunktur göngunnar.

Gangan hefst við Snæfellsskála.

HVANNALINDIR

13:00     Rústir Fjalla-Eyvindar og Höllu í Hvannalindum

Skötuhjúin Fjalla-Eyvindur og Halla dvöldu langdvölum í Hvannalindum og bera rústirnar handbragði þeirra vitni. Landvörður segir sögu þeirra og leiðir gesti um viðkvæmt en lífseigt vistkerfi Hvannalinda.

Gangan hefst við bílastæðið við rústirnar í Hvannalindum.

 

15:00    Landmótun vatns – jökulár og lindaár

Gengið er upp á Kreppuhrygg þar sem útsýnið opnast yfir farveg jökulárinnar Kreppu og Eystri Lindakvíslar. Af Kreppuhrygg sést glöggt munurinn á jökulám og lindaám og hvernig þær móta umhverfi sitt á ólíkan hátt. Gangan hefst við bílastæði við upphaf gönguleiðar að rústum Fjalla-Eyvindar og Höllu.

Gangan hefst við bílastæðið við rústirnar í Hvannalindum.

KVERKFJÖLL

20:00     Eldur og ís við Kverkjökul

Undan jaðri Kverkjökuls rennur jarðhitavatn í ánni Volgu og myndar formfagran íshelli. Hér er tilvalið að fræðast um samspil elda og ísa og íslenskar megineldstöðvar.

Gangan hefst á bílastæðinu inni við íshelli.

HOLUHRAUN

10:00     Holuhraun – land í mótun

Holuhraun myndaðist í stærsta hraungosi á Íslandi í 230 ár. Á miðjum öræfunum við hraunið blasa náttúruöflin við manni í öllu sínu veldi. Landvörður segir frá gosinu og aðdraganda þess og deilir vitneskju sinni um jarðfræði svæðisins.

Gangan hefst á bílastæði við upphaf gönguleiðar.

 

ASKJA OG DREKAGIL

13:00     Dulúð og kynngimagn Öskju

Fáir staðir búa yfir jafn mikilli dulúð og aðdráttarafli og Askja og hún gleymist fáum sem þangað koma. Landvörður segir frá jarðfræði Öskju og Dyngjufjalla og örlagaríkum heimsóknum manna í Öskju.

Gangan hefst á bílastæðinu við Vikraborgir.

19:00    Hálendisjóga og varðeldur á vikrinum við Drekagil

Allir velkomnir í alvöru hálendisjóga með landvörðum, reyndir sem óreyndir, stórir sem smáir! Ef veður leyfir verður varðeldur í Drekagili að jóganu loknu.

HERÐUBREIÐARLINDIR

10:00     Tíminn og vatnið

Gengið er um lindirnar gróðursælu við jaðar Ódáðahrauns. Í göngunni dregur landvörður fram muninn á jarðfræðliegum og mannlegum tíma á öræfunum.

Gangan hefst við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum.

Símanúmer landvarða

Snæfell                                    842-4367

Hvannalindir                             842-4368

Kverkfjöll                                 842-4369

Askja/Drekagil/Holuhraun/           842-4357 / 842-4359

Herðubreiðarlindir

Landverðir hlakka til að verja deginum með ykkur.