Alþjóðaráðstefna Landvarða í Tanzaníu 2012

tanzania5

tanzania5Í byrjun nóvember síðastliðinn lögðu tveir íslenskir landverðir í langferð til Afríku til að taka þátt í alþjóðaráðstefnu landvarða í Tanzaníu. Ráðstefnan var haldin við rætur Kilimanjaro sem er hæðsta fjall Afríku, á Hótel Ngudorto Mountain Lodge í Arusha. Alls 264 landverðir frá 40 löndum mættu á ráðstefnuna. Skipulagning ráðstefnunnar var í höndum International Ranger Federation (IRF, alþjóðasamtök landvarða). Í samtökunum eru 60 landvarðafélög sem starfa í 46 löndum og er Ísland þar á meðal. Megin hlutverk IRF er að stuðla og standa við bakið á landvörðum i þeirra hlutverki að vernda nátturu/ ogmenningarminjar. Eitt af verkefnum sem IRF eru að reyna að koma á legginn er “Rangers without borders” en hugmyndin með því er að landverðir  um allan heim vinni saman og læri hver af öðrum svo ekki þurfi alltaf að finna upp hjólið. Mörg verndarsvæði eru bæði undirmönnuð og fjársveltog er hugmyndin að betur sett svæði sendi frá sér búnað sem ekki er lengur notaður og mannskap til að aðstoða við þjálfun landvarða.

En svo við vitnum í IRF “lets work together as much as possible”.

Alþjóðlegar ráðstefnur eru því mikilvægar í að miðla þekkingu, verkkunnáttu og veita aðstoð á verndarsvæðum sem eru undirmönnuð og skortur er á fjármagni til að kaupa á nauðsynlegum búnaði til landvörslu og þjálfun landvarða. Ráðstefnan var  haldin 4 – 9  nóvember og þemað   var „Helthy Parks, Hungry People“ eða heilbrigðir garðar, hungrað fólk. Markmið ráðstefnunar var að vekja athygli á að náttúruvernd á undir höggi að sækja vegna yfirvalda og einstaklinga sem ásækjast í auknum mæli auðlindir, land, peninga og völd með ólöglegum hætti.

tanzania2Tanzanía
Tanzanía er í Austur Afríku og þekur 945.203 km3 lands með um 43 miljón íbúa. Stjórnvöld þar í landi hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á taka frá landsvæði til verndunar þar sem fólksfjölgun og útþennsla borga er hröð. Í dag er um 40% landsins verndað. Meðal merkustu verndarsvæðanna eru Serengeti Þjóðgarðurinn sem hefur fjölmennasta samansafn af villtu dýralífi á jörðinni, og Selous verndarsvæðið með stærstu stofna af fílum, vísundum, safali og villihundum í Afríku. Ferðamönnum fjölgar hratt í Tanzaníu líkt og hér á landi, en á síðustu fjórum árum hefur þeim fjölgað um 12% og heimsækja nú um 900.000 ferðamenn Tanzaníu á ári hverju. Allstaðar þarf að greiða aðgangseyrir inn á verndarsvæðin og fylla þarf út pappíra sem sýnir að viðkomandi hafi leyfi til að fara um svæðið. Eftirlit á verndarsvæðum er mikið sökum veiðiþjófnaðar.

Áskoranir í náttúruvernd í Tanzaníu er fyrst og fremst veiðiþjófnaður sem er stórt vandamál, en ásókn í tennur fíla og horn nashyrninga hefur aukist gífurlega þar sem eftirspurn er mikil. Sökum fátæktar verða oft árekstrar milli bænda og yfirvalda sem vill vernda svæði sem fólk hefur nýtt til veiðar, söfnun eldiviðar og plantna í áraraðir. Önnur vandamál eru landamæri en dýr virða enginn landamæri og erfitt að gera ráðstafanir til að halda stórum spendýrum innan ákveðins svæðis.

tanzania4Tækifæri í náttúruvernd eru styrking alþjóðlegra laga um náttúruvernd, menntun, samvinna við almenning og  milli landa með t.a.m. skiptiprógrömmum og alþjóðafélagasamtökum landvarða. Stjórnvöld í Tanzaníu líta einnig á ferðamenn sem tækifæri í náttúruvernd þar sem aukning í ásókn ferðamanna að heimsækja landið skapar gjaldeyristekjur og störf fyrir innfædda. Ferðamenn vekja einnig athygli út fyrir landsteinana á mikilvægi þess að dýr og vistkerfi þeirra verði vernduð svo núverandi og komandi kynslóðir geti notið þess.

Landvarðanám í Tanzaníu er sex mánuðir sem fellst í þjálfun á vettvangi og bóklegu námi í vistfræði-,sjúkdóms-, plöntu- og dýrafræði. Árið 1996 luku 50 nemendur námi í landvörslu en 2012 voru þeir 300. Þörf er á um 2000 nýjum landvörðum í Tanzaníu, en einungis um 20% verndarsvæða eru fullmönnuð þar sem miðað er við að einn landvörður anni 25 km2 svæði. Í dag hefur að meðaltali einn landvörður umsjón með um 160 km2. Á árunum 1997 – 2012 létust 16 landverðir í átökum við veiðiþjófa og 6 slösuðust alvarlega. Á þessu tímabili voru 1734 veiðiþjófar hnepptir í varðhald.

 

 

Rtanzania3áðstefnan

Á ráðstefnunni voru fluttir  um 40 fyrilestrar og sýningar á fjölda fræðslumynda. Fyrirlestrar frá innfæddum vöktu mikla athygli enda eru störf landvarða í Tanzaníu óumdeilanlega talsvert ólík starfi okkar hér á Íslandi. Fyrirlestrarnir fjölluðu m.a. um þjálfun og störf landvarða, þörfina á aukinni landvörslu og fjármagni til náttúruverndar, skortur á tækjum og tólum til landvörslu og hvernig yfirvöld vinna að því að fá almenning í landinu til að vinna með sér að náttúruvernd. En yfirvöld þar í landi eru farin að gera sér grein fyrir því að besti árangur í náttúruvernd fellst í menntun um náttúru landsins og að almenningur átti sig á mikilvægi náttúruverndar. Vel menntaðir þjóðfélagsþegnar og heilbrigð vistkerfi er leið út úr fátækt.

Hápunktur ráðstefnunnar var án efa vettvangsferð á náttúruverndarsvæði. Ráðstefnugestir gátu valið úr nokkrum ferðum og við Íslendingarnir völdum að fara í dagsferð í Arusha þjóðgarðinn, annars vegar safarí og hinsvegar fuglaskoðun. Í safarí ferðinni var einnig farið í gönguferð með landverði sem fræddi gestina um allt frá hvaða tegund af úrgangi frá dýrum sáust á göngunni til hvernig forðast ætti að verða fyrir buffaló á hlaupum. Í fuglaskoðunarferðinni sáu ferðalangar  yfir 100 tegundir fugla á nokkrum klukkutímum, en í Tanzaníu eru meira en 1000 tegundir fugla miðað við á Íslandi sem telur tæplega  80 tegundir.

Á ráðstefnunni kom fram að víðast hvar í heiminum veit almenningur lítið um starf landvarða, t.a.m. í Bandaríkjunum telja margir að landverðir séu starfsmenn innan lögreglunnar og í Suður Ameríku halda margir að megin starf landvarða þar sé að þrífa klósett og vera í miðasölu.   Á alþjóðaráðstefnunni komu saman landverðir frá öllum heimshornum og eru störf þeirra æði misjöfn. Í grunninn vinnum við landverðir að því sama, að vernda svæðin og fræða almenning um mikilvægi náttúruverndar. Landverðir hafa tileinkað sér sérstakt form fræðslu sem kallast „náttúrutúlkun“ til að auka ánægju, upplifun og áhuga ferðamanna á umhverfinu. Markmið náttúrutúlkunar er einnig að auka skilning fólks á náttúrunni og jafnframt vekja með því virðingu fyrir henni, með það fyrir augum að þekking leiði til virðingar og virðingin til verndunar.

Helstu niðurstöður ráðstefnunar voru að náttúruverndarsvæði eiga undir höggi að sækja, fyrst og fremst vegna ágangs á svæðin, auknar árásir á landverði, fólksfjölgun, útþensla borga og fátækt sem skila sér í ásókn í náttúruauðlindir verndarsvæða. Fyrsta alþjóðaráðstefna landvarða var í Zakopane í Póllandi 1995 og er ráðstefnan í Tanzaníu sú sjöunda í röðinni. Næsta ráðstefna verður í Rocky Mountains í Bandaríkjunum árið 2016 og væntum við þess að íslenskir landverðir muni fjölmenna á þá ráðstefnu. Það er mikilvægt að viðhalda þessu samstarfi og styðja við bakið á hvort öðru í baráttunni við veiðiþjófa og ágangi á náttúruauðlindir heimsins.