Aðalfundur 31. mars 2008

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands, 31. mars 2008 kl. 19

Fundarstaður:  Litla brekka við Lækjarbrekku, Bankastræti 2, Reykjavík
Mætt:  Ásta Rut Hjartardóttir, Soffía Helga Valsdóttir, Elías Már Guðnason, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Hannesdóttir, Stefán Guðmundsson, Sæmundur Þór Sigurðsson, Birgir Örn Sigurðsson, Guðmundur Gaukur Vigfússon, Helga Árnadóttir, Jón Björnsson, Ragnar St. Jóhannsson, Áki Jónsson, Jóna S. Óladóttir, Torfi Stefán Jónsson, Kristín Guðnadóttir, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, Hrafnhildur Hannesdóttir, Hermann Valsson, Þórunn Sigþórsdóttir, Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, Ásta Davíðsdóttir, Friðrik Dagur Arnarsson, Aurora G. Friðriksdóttir, Ólafur A. Jónsson (frá Umhverfisstofnun), Petrína Halldórsdóttir, Davíð G. Diego, Helga Lilja, Rebekka Þráinsdóttir, Þórður H. Ólafsson (frá Vatnajökulsþjóðgarði) og Kristín Þóra Jökulsdóttir.

1.  Kosning fundarstjóra
Formaður félagsins kynnti sig.  Friðrik Dagur Arnarson kosinn fundarstjóri

2.  Kynning á fundarmönnum
Fundarmenn kynntu sig.

3.  Skýrsla stjórnar
Þórunn Sigþórsdóttir, formaður LÍ las skýrslu stjórnar.  Þar kom ýmislegt fram, meðal annars að:

-Mikið hefur verið um alþjóðasamskipti á undanförnu ári, 11 íslenskir landverðir fóru á námskeið í náttúrutúlkun í Danmörku í júní á síðasta ári, og 9 landverðir héldu á Evrópuráðstefnu í Rúmeníu í september.  Útlit er fyrir að sama verði uppi á teningnum á næstunni, landverðir í Ungverjalandi ætla að halda næstu Evrópuráðstefnu, sem haldin verður í september á þessu ári, 8.-10. október verður síðan haldið námskeið fyrir landverði í Danmörku, en tilgangur þess er að auka vægi náttúrutúlkunar í starfi landvarða.  Einnig á þar að hefja samstarf landvarðasamtaka í Norrænu löndunum og í Eystrasaltsríkjunum.  Heimsþing landvarða verður síðan líklega haldið í mars á næsta ári.  Það átti að halda þingið í Bólivíu, en vegna flóða þar getur verið að þingið verði haldið í Argentínu.  

-Dagur landvarða, 31. júlí, var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn.
-20 nýir landverðir skráðir í félagið á þessu ári.
-Skráðir félagsmenn 31. mars 2008: 132.
-Skýrsla stjórnar samþykkt samhljóða.

4.  Yfirlit reikninga
Aurora Friðriksdóttir, gjaldkeri félagsins fór yfir rekstrar- og efnahagsreikning félagsins.
Búið er að stofna reikning með 50.000 kr. inneign fyrir ferðalög íslenskra landvarða á heimsþing landvarða í Bólivíu/Argentínu.

5.  Lagabreytingar
Ekki hafa komið fram neinar tillögur um lagabreytingar, skv. fundarboði.  Þó er hægt að samþykkja minniháttar lagabreytingar.  Í fundargerð aðalfundar á síðasta ári var ákveðið að leggja niður umhverfis og náttúruverndarnefnd, en fallið hefur verið frá því.

6.  Félagsgjöld
Stjórnin lagði fram tillögu um óbreytt félagsgjald kr. 2000.  Hermann Valsson kom hins vegar fram með tillögu um að hækka gjaldið upp í 3000 kr, og nota þá auka upphæðina í kynningarstarf fyrir félagið.  Aurora benti á að margir væru eins konar styrktarfélagar fyrir félagið, hún telur líkur til þess að félagsmönnum gæti fækkað væru félagsgjöldin hækkað þetta mikið.  Hermann telur að ef hlúð er að fólki, meira gefið út, þá haldist fólk frekar innan félagsins, og að hópurinn stækki þá frekar.  Áki Jónsson benti á að ef meira væri gert, t.a.m. að halda fréttablaðinu Ýli við, þá væri þetta réttlætanlegt.  Orri benti á að ástæðan fyrir því að Ýlir lagðist af var sú að enginn fékkst til að ritstýra blaðinu.  3 tillögur, 3000 kr., 2500 kr., eða 2000 kr komu fram.  3000 kr. tillagan var felld, en 2500 kr., samþykkt með 17 atkvæðum gegn engu.  

7.  Kosning stjórnar
Stjórnin er skipuð 5 félögum.  Kosin til tveggja ára í senn.  Þórunn Sigþórsdóttir formaður og Ásta Rut Hjartardóttir eru á seinna ári, sitja þá eitt ár einn og eru ekki kosnar i ár.  Því vantaði meðstjórnanda til eins árs.  Aurora Friðriksdóttir og Ásta Kristín Davíðsdóttir hafa boðið sig fram til að sitja tvö ár í viðbót.  Elías Már Guðnason baðst undan endurkjöri, honum voru þökkuð góð störf.  Guðrún Lára Pálmadóttir hefur boðið sig fram til setu í stjórn.  Áki stakk upp á að nýliði af námskeiði kæmi inn í stjórn, bent var á Sæmund Þór Sigurðsson.  Hermann Valsson bauð sig fram sem varamaður í stjórn.  Til að skera úr um það hverjir munu sitja í stjórn, var atkvæðaseðlum dreift.

Atkvæðin fóru á þennan veg:

Aurora 23 atkvæði – aðalmaður til tveggja ára
Guðrún Lára 20 atkvæði – aðalmaður til tveggja ára
Ásta Kristin 17 atkvæði – aðalmaður til 1 árs
Sæmundur 15 atkvæði – varamaður

Hermann verður varamaður, ásamt Sæmundi.

8.  Kosning í nefndir og kosning endurskoðenda
Þórunn fór yfir nefndir félagsins.

Kjaranefnd: Kristin Guðnadóttir, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir og Friðrik Dagur Arnarsson.
Gáfu sig öll fram aftur.

Laganefnd:  Þórunn formaður kvatti Friðrik Dag Arnarsson til að vera áfram í nefndinni, og að fá tvær manneskjur til viðbótar.  Kristin Guðnadóttir og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir buðu sig fram ásamt Friðriki Degi.

Alþjóðanefnd:  Laufey, Dagný og Áki, til í að vera áfram.  

Skemmtinefnd:  Soffía, Laufey og Kalli.  Kalli ætlar að hætta, og Helga vill koma inn.  

Umhverfis og náttúruverndarnefnd:  Þessi nefnd hefur verið óvirk, óskað var eftir framboðum.  Þórdís og Birgir buðu sig fram, með því skilyrði að eldri landvörður kæmi með.  Friðrik Dagur bauð sig fram, því er Umhverfis og náttúruverndarnefnd virk á ný.  

Ritnefnd Ýlis:  Jóhanna Katrín bauð sig fram, einnig buðu Hermann Valsson og Hrafnhildur Hannesdóttir sig fram.

Endurskoðendur:  Soffía Helga Valsdóttir og Áki Jónsson verða endurskoðendur.

9. Önnur mál
Fengum tvo góða gesti, Þórð H. Ólafsson, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs, og Ólafur A. Jónsson, yfirmann landvörslu hjá Umhverfisstofnun.  

Ávörp gestanna
Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs
Framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs mun hafa aðsetur í Reykjavík.  Það er búið að vinna að stofnun um Vatnajökulsþjóðgarð í mörg ár.  Stjórn þjóðgarðsins varð til í ágúst á siðasta ári, þar er formaður Anna Kristín Ólafsdóttir, Ólöf Ýrr Atladóttir er varamaður.  Stjórnin átti sinn fyrsta fund 19. september 2007.  Það sem er til í dag er ríkisstofnunin Vatnajökulsþjóðgarður, og er á fjárlögum.  Þjóðgarðurinn verður stofnaður formlega í lok maí, byrjun júní.  Hafa ekki fengið Jökulsárgljúfur og Skaftafell formlega „afhent“.  Þórður sýndi kort af svæðinu og hvernig það skiptist niður í mismunandi svæðum.  Fyrirhugað að byrja á einni gestastofu á ári til 2012.  En í þjóðgarðinum verða bæði upplýsingamiðstöðvar og gestastofur.  Hugmyndin er að þjóðgarðsvörðurinn á hverju svæði verði yfirmaður á hverju svæði.  Nýir landvörslustaðir: Kverkfjöll, Snæfell, Heinabergssvæðið, Hrauneyjar, Nýjidalur.  Aukið við landvörslu bæði í Skaftafelli og i Jökulsárgljúfrum í sumar.  Austursvæðið er samvinnuverkefni með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, og í Öskju og Herðubreiðalindum verður samstarf við Ferðafélag Akureyrar, eins og áður.  Ferðafélag Íslands mun ráða skálavörð í Nýjadal, og Vatnajökulsþjóðgarður mun ráða landvörð.  Það gæti stefnt í það að Langisjór og það svæði verði einnig innan þjóðgarðsins.  

Friðrik Dagur Arnarsson spurði hvort fólki í afgreiðslustörfum muni fækka í Skaftafelli og landvörðum fjölga.  Þórður svaraði að það muni gerast.  

Áki Jónsson:  Af hverju er þetta ekki undir UST?  Þórður telur að það sé vegna þess hve stórt fyrirbæri Vatnajökulsþjóðgarður verður.  

Soffía Helga Valsdóttir:  Er hann með tölur yfir landvarðastöðurnar?  Þórður giskar á að þær séu um 20, og alls vinni um 30 manns í þjóðgarðinum.  Flestar stöður frá byrjun júní til loka ágúst.  

Hermann Valsson:  Stækkun á Austursvæðinu, sér hann að þjóðgarðurinn muni stækka til NA?  Þórður:  ýmis þjóðlendumál standa í veginum fyrir því.  

Hermann:  Verður þetta stærsti þjóðgarður Evrópu, Þórður: já.

Soffia:  Verða kjörin þau sömu og hjá UST?  Þórður: veit það ekki, en skilst að þetta sé í farvegi.  Hermann telur launin vera til skammar, launin eru undir atvinnuleysisbótum.  Hann spyr hvort UST og Vatnajökulsþjóðgarður vilji hafa launin sómasamleg.  Þórður:  það mæta margir i landvörsluna þrátt fyrir launin, en þetta er umræða sem þarf að fara fram innan félagsins.  Friðrik Dagur:  við gerum stofnanasamninga, það hefur aðallega verið við UST, Þingvallaþjóðgarður hefur fylgt eftir.  En það er spurning hvort þessar aukagreiðslur ættu frekar heima inni í grunnlaunum.  

Þórunn:  Á að skipta svæðinu eftir náttúruverndarstigi?  Eiga þetta að vera mismikil verndarsvæði?  Þórður:  Verður mjög mismunandi verndarstig innan svæðanna.  Verður farið í það að byrja að vinna verndaráætlun á næstu vikum.  Ein verndaráætlun verður gerð fyrir hvert svæði.  Friðrik Dagur:  Hverjir vinna verndaráætlanirnar?  Þórður:  ekki búið að finna þá sem vinna þetta, heimafólk og sérfræðinga.  Friðrik Dagur benti á sérfræðiþekkingu landvarða.  Þórður nefndi að svæðisráð hvers svæðis ræður mjög miklu.  

Aurora:  Eiga þetta að vera bara sumarstörf fyrir landverði, eða á að fjölga heilsárslandvörðum?  Þórður:  tveir heilsársstarfmenn í Jökulsárgljúfrum, fjórir á Suðurlandi.  Hrauneyjar gætu t.a.m. verið staður fyrir heilsárslandvörslu.  Stefnan er á fjölgun heilsársstarfsmanna í gestastofum.  Jóhanna Katrín:  Það bjóða ekki öll svæði upp á heilsárslandvörslu, en aftur á móti þarf að hugsa um svæðið og undirbúa það fyrir ferðamannatímann.  Munu heilsársstarfsmenn sjá um þetta?  Þórður telur að svo verði.  Öryggismál verða tekin fyrir varðandi jöklaferðir, en ekki gert ráð fyrir miklu eftirliti á jöklinum.  

Ólafur Arnar Jónsson hjá Umhverfisstofnun:
Hefur mikið breyst í landvörslumálum hjá stofnuninni.  Nokkur svæði farin frá stofnuninni.  Þetta er tækifæri til að einbeita sér betur að þeim svæðum sem eftir eru.  Sextán manns munu starfa við landvörslu hjá UST í sumar.  Í sumar verður landvarsla í Dyrhólaey, frá lok apríl þar til í lok ágúst.  Einnig verður tilraun í sumar með að hafa svæðalandvörð á Vesturlandi, með aðsetur í Borgarnesi eða í nágrenni Borgarness.  Landvörðurinn verður með aðstöðu í Reykholti, en mun ekki geta dvalið þar.  Einnig verða tímabil í Vatnsfirði og Friðlandi að Fjallabaki lengd.  Einnig hefur heilsársstörfum fjölgað, Jón Björnsson hefur verið ráðinn sem slíkur á Ísafjörð, einnig hefur Lovísa Ásgrímsdóttir verið ráðinn sem heilsárslandvörður í Surtsey, með aðsetur í Vestmannaeyjum.  Elva Guðmundsdóttir er að hætta störfum í Mývatnssveit, og er búið að ráða nýjan sérfræðing þar.  
Umhverfisstofnun hefur hug á að landverðir taki að sér umhverfisvöktun, að landverðir fylgist með hugsanlegum breytingum á náttúrunni, og ætla því að hefja samstarf við náttúrustofurnar.  UST leggur einnig mikla áherslu á gott samstarf milli UST og LÍ.  

Orri Páll Jóhannsson:  Það þarf að styrkja landvörslu við Gullfoss/Geysi og á Friðlandi á Fjallabaki, hvað sér UST fram á um það?  Ólafur:  Bráðnauðsynlegt að auka landvörslu á Gullfossi/Geysi og á Friðlandi á fjallabaki.  Með meiri skilningi stjórnvalda koma hugsanlega fleiri landverðir.  Við eigum þó eftir að sinna meirihluta friðlýstra svæða.  Telur nauðsynlegt að landverðir verði sýnilegir á þeim svæðum sem hafa verið vanrækt.  UST gerir kröfur um meira fjármagn vegna landvörslu, verður að sjá til með það hvað fjárveitingavaldið gerir.

Jóna Óladóttir:  Sér UST um klæðnað landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs í sumar?  Vatnajökulsþjóðgarður sér um það.  Ólafur:  nýir bolir hjá UST í sumar, og UST er í raun að endurnýja eitthvað af fatnaðinum.  

Orri:  Á náttúruverndarsviði UST var mikið af góðu fólki, flytjast fleiri en sex starfsmenn UST yfir í Vatnajökulsþjóðgarð?  Þórður:  Það eru bara þessir sex.  

Friðrik Dagur þakkar Ólafi og Þórði fyrir kynningar sínar.  Friðrik Dagur nefndi að landvarsla er nokkuð ávanabindandi, og því hafa landverðir sætt sig við lág laun.  Þó þurfum við að vera dugleg að veita aðhald í þessum efnum.  

Þórunn þakkar Þórði og Ólafi sérstaklega fyrir áhugaverðar kynningar.  


Nefndir:

Fulltrúar nefnda innan Landvarðafélagsins héldu stutt ávarp um það hvað á daga nefndanna hefur drifið:

Alþjóðanefnd:
 
Kynning á Skotlandsferðinni var haldin, en fáir mættu.
Um tugur landvarða fór á náttúrutúlkunarnámskeið í Danmörku.
Stóð fyrir sýningu á Thin Green Line, heimildamynd um landverði víða í heiminum.
Farin ferð á Evrópuráðstefnu landvarða í Rúmeníu

Hanna Kata: er fyrirhugað að sækja um styrki fyrir næstu ferðir?  Áki, já það er fyrirhugað.
Orri:  Hugsanlega geta hin átta nýju sveitarfélög sem mynda Vatnajökulsþjóðgarð styrkt þessi verkefni, þ.e. það má sækja um styrk hjá þeim.  

Kjaranefnd:
Kristín:  ætlum að fara að segja upp stofnanasamningnum við UST, spyr hvort einhverjar kröfur séu.  Þingvellir taka landverði inn í aðra flokka en UST hefur gert, og það hafa verið öðruvísi reglur þar.  
Orri telur það vera mjög raunhæf krafa að fella sporslurnar inn í grunnlaunin.  

Skemmtinefnd:
Soffía:  skemmtinefndin hélt vel heppnaða góugleði, og byrjað er að skipuleggja vorfagnað.  Hugmyndin er að fara í ferð og halda fagnað eftir það.  

Fatnaður landvarða:
Þórunn sýndi einkennisfatnað Landvarðafélags Íslands sem var gerður fyrir Rúmeníuferðina.  Einnig uppi hugmyndir um að búa til buff og merki sem hægt er að sauma í bakpoka og annað.

Verklagsreglur um samskipti stjórnar og nefnda

Þórunn:  tillaga um að búa til verklagsreglur varðandi samskipti stjórnar og nefnda.  Áki:  stjórnin á að kalla saman nefndir, til að viðhalda upplýsingaflæði.  Friðrik Dagur: eðlilegt að stjórnin búi til nokkuð almennar reglur, t.a.m., hvaða  heimildir hafa nefndir til að taka ákvarðanir varðandi félagið, t.d. fjárhagslegar skuldbindingar og annað.  

Blaðaskrif og samskipti við fjölmiðla
Jóhanna Katrín: Telur að það væri skemmtilegt að gera Ýli, fréttabréf LÍ virkt á ný, en það hefur ekki verið gefið út á undanförnum árum, því enginn hefur fengist í verkið.  Jóhanna Katrín hefur tekið Ýli að sér, ásamt Hermanni Valssyni og Hrafnhildi Hannesdóttur.  Jóhanna Katrín óskar eftir samstarfi af svæðunum, að landverðir sendi inn efni, brandara, greinar eða hvað sem er.  

Soffía:  Einnig var Jónas frá Útiveru búinn að óska eftir greinum frá landvörðum.

Friðrik Dagur:  Leggur til að samskiptin vegna landvarðahornsins á Rás 2 fari fram í gegn um ritnefndina.  Einnig er mögulegt að ræða við Rás 1 eða Bylgjuna, fréttaritara eða annað.  

Soffía:  Einu sinni er ekki nóg, hvert svæði þarf að koma í fjölmiðil oftar en einu sinni.  

Hugmyndir um að setja dagskrá landvarðahornsins inn á landverdir.is.  

Orri:  væri hugsanlega hægt að ræða við Rás 2 um tvö stutt landvarðahorn á viku.  

Friðrik Dagur:  við höfum rétt til að tala við fjölmiðla, upp að vissu marki.  Búið að ræða við lögfræðinga, það er ekki hægt að banna landvörðum að ræða við fjölmiðla, án þess að ræða við yfirmenn stofnunarinnar, þegar bara er verið að ræða almenna hluti, sama hvað stofnanir segja.  

Þórunn:  Þakkar fólki fyrir mætinguna, og býður nýju landverðina velkomna í Landvarðafélagið.  

Fundi slitið kl. 22:23

Ritari:
Ásta Rut