Aðbúnaður landvarða

Mynd 1

Landvarðafélagið stóð fyrir könnun meðal landvarða til að kanna afstöðu þeirra til húsnæðismála og aðbúnaðar þeirra í starfi. Könnunin fór fram í nóvember og desember 2015. Alls tóku 48 þátt í könnuninni úr 170 manna úrtaki. Þáttakan var því um 28%

Af þeim 48 sem svöruðu höfðu 35 unnið sem landvörður sumarið áður, eða tæp 73% svarenda. 

 

Samantekt úr könnuninni

Landverðir voru spurðir út í afstöðu þeirra til ýmissa þátta sem varða starf þeirra og húsnæði á meðan starfi þeirra stóð. Var leitast til að sjá hvort afstaða landvarða til aðbúnaðar hefði breyst mikið milli ára en mikil dreifing var á svörum þess efnis og ekki marktækur munur á afstöðu þeirra landvarða sem unnið höfðu fleiri en eitt sumar, hvort aðbúnaður hefði versnað eða skánað. Til að sjá mun milli ára þarf að halda áfram að kanna afstöðu landvarða eftir hvert tímabil og bera saman á milli ára.

Afstaða til húsnæðis á starfsstöð var yfir meðallagi jákvæð en helstu athugasemdir vegna húsnæðismála voru vegna fjölgunar landvarða á einstökum starfsstöðvum sem gerðu það að verkum að þrengra var um starfsfólk í húsnæðinu. Þá kom einnig fram sú afstaða að samræmi ætti að vera milli húsnæðismála á láglendi og hálendi að því leiti að starfsmenn á láglendi sé einnig skaffað húsnæði yfir starfstímann.

Spurt var út í afstöðu landvarða til fatnaðar, verkfæra og bílamála. Almennt voru landverðir ánægðir með vinnubíla og verkfæri en meiri óánægja var með fatnað. Í athugasemdum kom það fram að fatnaður væri ekki vatnsheldur en einnig var óánægja með útlit fatnaðarins.

 

Niðurstöður könnunarinnar

Mynd 1

Af þeim sem svöruðu höfðu 72,92% unnið sem landverðir sumarið 2015 en 27,08% ekki unnið það sumar.

 

Mynd 2

Af þeim sem svöruðu hafði meirihlutinn unnið áður sem landvörður eða tæp 86% svarenda. Tæp 27% höfðu unnið lengur en 5 ár, rétt tæp 40% 3-5 ár en 33% í 1-2 ár. Var spurt hjá hvaða stofnun eða þjóðgarði svarendur höfðu unnið síðast sem landvörður og var mikill meirihluti sem hafði unnið hjá Vatnajökulsþjóðgarði á síðasta starfstímabili sínu, eða um 58,33% 27,08% höfðu unnið hjá Umhverfisstofnun en 14,58% hjá Þingvallaþjóðgarði.

 

Mynd 3

                                                                            Sp. 4. Hvernig húsnæði var á þinni starfsstöð, fyrir landverði?

 

Meirihluti svarenda bjó í starfsmannahúsi á vegum atvinnurekanda á meðan á starfi stóð eða 60, 42%. 18,75% bjuggu í skála, 12,50% í hjólhýsi, tjaldvagni eða fellihýsi og hvor um sig 4,17% á eigin heimili eða annars konar húsnæði. Spurt var „á skalanum 1-10 hversu viðunandi fannst þér húsnæðið vera, ef 1 er óviðunandi en 10 er mjög viðunandi“ og var svarið að meðaltali 6,74. Tíðasta gildið var 8 en rúm 17% merktu við það. Næsttíðustu gildin, bæði með tæp 15% voru gildin 10 og 4. Rúm 6% svaranda fannst húsnæðið óviðunandi og gaf því gildið 1. Það virðast því vera skiptar skoðanir með húsnæði landvarða, þar sem hlutfall landvarða er ánægt með húsnæði á meðan að annað hlutfall er óánægt og finnst það jafnvel óviðunandi. Ræðst þetta ekki síst af ólíkum aðstæðum á starfsstöðvum landvarða og er e.t.v. merki þess að gæti verði samræmis í húsnæðiskosti landvarða eftir mesta megni.

 

Mynd 4

Almennt var svarið við spurningunni að ofan vel yfir miðgildið. Á skalanum 1-10 var meðaltalið fyrir fatnað 6 en það er lægsta meðaltal fyrir aðbúnað landvarða en þar var einnig áberandi fjöldi svarenda sem gaf fatnaði tölugildi undir miðgildinu 5. Meðaltal fyrir verkfæri reyndist rúmlega 7 en 8 fyrir starfsmannabíl. Landverðir voru því allra jafna ánægðir með bílinn þó svo að í þremur tilvikum hafi svarendum þótt bílamál óviðunandi. Þegar landverðir voru spurðir hversu viðunandi aðbúnaður þeirra væri almennt á skalanum 1-10 var meðaltalið 7. Ekki var marktækur munur á afstöðu landvarða til aðbúnaðar milli ára en mikil dreifing var í svörun þegar spurt var að því. Samtala svara var því nálægt miðgildinu 5. Mikilvægt er að halda áfram og gera árlega könnun meðal landvarða til að rannsaka hvort afstaða þeirra breytist milli ára. Þannig er einnig hægt að greina hvaða þættir það eru sem helst valda óánægju landvarða vegna áðbúnaðar í starfi.

 

Aðrar athugasemdir

Svarendum var boðið upp á að koma athugasemdum á framfæri og bárust 15 athugasemdir. Þar var einna helst um að ræða skýringar á hvers vegna húsnæði þótti ábótavant. Voru nokkrir svarendur sem bentu á að húsnæðið hefði að engi leiti breyst en fjöldi starfsmanna sem notuðu það hefði aukist og þar með einnig álag á starfsmenn. Þá voru athugasemdir um að uppfæra þyrfti símakost landvarða þannig að landverðir hefðu snjallsíma til að geta leitað sér upplýsinga um veður o.fl. og tekið myndir. Athugasemdir vegna fatnaðar voru einnig áberandi og var meðal annars bent á að fatnaður landvarða væri ekki vatnsheldur og athugasemdir gerðar á útlit hans. Aðrar athugasemdir snérust að versnandi húsnæði milli ára, vöntun á virðingu atvinnurekanda gangvart starfsmönnum, beiðni um að samræmis væri gætt milli þeirra sem ynnu á láglendi annars vegar og hálendi hins vegar og almennum þökkum til landvarðafélagsins fyrir að hafa unnið að könnuninni.


Niðurstöður

Af þeim sem svöruðu hafði meirihlutinn unnið sem landvörður árið 2015 og endurspegla svörin því ágætlega afstöðu landvarða til aðbúnaðar í starfi síðastliðið sumar. Var mikill meirihluti svarenda með reynslu í starfi sem landvörður og höfðu unnið áður í landvörslu.

Almennt sýndi svörun að landverðir voru í yfir meðaltali ánægðir með aðbúnað í starfi. Átti þetta við fatnað, bílakost, verkfæri og húsnæði. Mesta óánægjan var með fatnað í starfi en mesta ánægjan var með bílakost. Afstaða svarenda til húsnæðis var almennt jákvæð þar sem svarendum fannst húsnæðið viðunandi. Þó bárust alvarlegar athugasemdir þar sem húsnæði á einstaka starfsstöðvum var talið óviðunandi. Einnig var bent á í athugasemdum að fjölgun starfsmanna í annars áagætum starfsmannahúsum hefði í för með sér aukið álag á þá sem þar byggju.

Var leitast til að sjá hvort afstaða landvarða til aðbúnaðar hefði breyst mikið milli ára en mikil dreifing var á svörum þess efnis og ekki marktækur munur á afstöðu þeirra landvarða sem unnið höfðu fleiri en eitt sumar, hvort aðbúnaður hefði vernsað eða skánað. Til að sjá mun milli ára þarf að halda áfram að kanna afstöðu landvarða eftir hvert tímabil og bera saman á milli ára.

Landvarðafélagið vill koma á framfæri þökkum til þeirra sem tóku þátt í könnun félagsins um aðbúnað landvarða í starfi.