Landverðir vinna í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum. Fjölbreytileikinn er það sem einkennir starf landvarða og er fræðsla til gesta einn af mikilvægum þáttum í starfi landvarða ásamt eftirliti með umgengni og umferð fólks þar sem gætt er þess að náttúruverndarlögum sé fylgt. Viðhald og merking göngustíga eru einnig á könnu landvarða og spilar öryggisþátturinn líka stórt hlutverk, t.d. vara landverðir við hættum og setja upp viðeigandi merkingar. Starfið er margþætt og þótt oft á tíðum virðist bera mest á ruslatínslunni (hafa landverðir ekki farið varhlutan af að tína upp klósettbréf og annan ófögnuð) þá er það langt í frá það eina sem landverðir gera.
Landverðir út um allan heim eru í grunninn að vinna að því sama, vernda og fræða. Starfið er að vísu mishættulegt eftir landsvæðum og geta landverðir þurft að takast á við t.d. veiðiþjófnað og hættulegt dýralíf. Sérstaða landvarða á Íslandi í hinum alþjóðlega heimi landvörslunnar er að við höfum mun fleiri kvenkyns landverði en víðsvegar annarsstaðar í heiminum. Vekjum við því oft athygli á alþjóðlegum ráðstefnum landvarða fyrir hversu hátt hlutfall landvarða eru kvenkyns. Hin sérstaðan sem er ekki alveg jafn jákvæð er sú að landvarslan á Íslandi er nánast eingöngu sumarvinna. Í flestum löndum er heilsárslandvarsla og landvarsla því eitthvað sem þú getur starfað við á ársgrundvelli og valið sem starfsgrein. Vissulega var hægt að rökstyðja með því að veðráttan hér á landi er önnur og verri heldur en á mörgum öðrum stöðum í heiminum en á ekki við lengur því við erum að fá ferðamenn hingað til lands allt árið um kring. Sífellt erum við með metmánuð í komu ferðamanna til landsins. Jú vissulega er veðrið og veðráttan kannski öðruvísi en við verðum að vera í takt við aukna þörf og í ljósi þess þá verðum við að fá heilsárslandvörslu og fjölga landvörðum til muna á sumrin líka. Með heilsárslandvörslu þá höldum við líka í þekkinguna sem landvörður öðlast í starfi sínu og missum ekki eftir tvö, þrjú sumur þegar landvörðurinn getur ekki lengur unnið við landvörsluna eingöngu í sumarvinnu og þarf að finna sér annað starf. Hver á að standa vörð um landið okkar, hlúa að því, fræða misvitra ferðamenn hvernig umgangast á landið okkar á sumrin sem og vetrum.
Við þurfum að opna augun fyrir því að hlúa þarf að landinu og gæta að sérstöðunni, náttúrunni og umgengni við hana. Með öllum þessum fjölda sem ferðast um landið þá stöndum við frammi fyrir breyttum tímum þar sem verður að stýra umferð fólks, hafa eftirlit með svæðunum og öfluga fræðslu.
Landverðir á Íslandi og um allan heim munu fagna alþjóðadegi landvarða sem er 31. júlí næstkomandi en sá dagur var haldinn í fyrsta skipti 31. júli 2007 á 15 ára afmæli Alþjóðlega landvarðafélagsins (International Ranger Federation). Landvarðafélag Ísland er eitt af 63 landvarðafélögum víðsvegar um heiminn sem eru hluti af Alþjóðlega landvarðafélaginu (IRF) og mun halda upp á daginn. Dagurinn er haldinn til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Einnig er þessi dagur haldinn hátíðlegur til að fagna starfi landvarða um allan heim við að vernda náttúru- og menningalegu verðmæti heimsins.
Í tilefni dagsins þá bjóða landverðir til hinna ýmsu viðburða tengda deginum á sunnudaginn.
Sunnanverðir Vestfirðir
Í friðlandinu Vatnsfirði verður fræðsluganga í Lambagil í Vatnsdal. Mæting er við Hótel Flókalund kl. 13:00. Gangan er miðlungs létt og áætlað að taki 4 klst.
Vesturlandið
Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli verður einnig haldið upp á daginn. Kynning á störfum landvarða með aðaláherslu á störfum landvarða í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Einnig verður gengið um nágrenni Malarrifs. Hist verður á gestastofunni á Malarrifi kl: 14:00 – Nánari upplýsingar er hægt að fá á gestastofunni eða í síma 436-6888
Norðurland
Í Mývatnssveit verður fræðsluganga í Dimmuborgum með öðru sniði en dagsdaglega. Sagt verður frá störfum landvarða á svæðinu og vítt um heiminn. Lagt verður af stað klukkan 14:00 frá aðalhliðinu að Dimmuborgum. Gera má ráð fyrir að gangan taki um klukkustund.
Suðurland
Landverðir í Skaftafelli verða með fræðslu um starf landvarða frá upphafi, þá, nú og í framtíðinni með aðaláherslu á Skaftafell. Hist verður við gestastofuna kl: 13:00
Hálendið
Í Öskju/Dregagili verða landverðir með nokkra viðburði tengda alþjóðadegi landvarða.
Laugardagurinn 30. júlí Askja/Drekagil
Gengið með geimförum
Askja og Dyngjufjöll urðu fyrir valinu sem æfingasvæði fyrir bandarísk geimfaraefni á sjöunda áratugnum. Landverðir í Öskju bjóða til kvöldgöngu á þessum slóðum, sem oft hefur verið líkt við tunglið. Saga geimfaraheimsóknanna verður rifjuð upp og margbrotin tengsl svæðisins við stjörnugeiminn dregin fram á sjónarsviðið. Gangan hefst við bílastæðið í Drekagili kl. 21:00 og tekur um það bil 2 klst. Landvörður leiðsegir á ensku og eru allir velkomnir.
Sunnudagurinn 31. júlí – Herðubreiðarlindir
Hálendisvin við rætur Herðubreiðar
Mitt í hrjóstrugum öræfum Ódáðahrauns spretta fram lindir Herðubreiðar og skapa þar gróðri, fuglum og mönnum kærkominn griðastað. Á alþjóðgadegi landvarða bjóða landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs börnum á öllum aldri í létta og skemmtilega skoðunarferð um þetta einstaka svæði. Áhersla verður lögð á samspil hrauns, vatns og lífs í lindunum og athyglinni beint sérstaklega að því smáa en mikilvæga í náttúrunni í kringum okkur. Gangan hefst við Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum kl. 10:00 og tekur um klukkustund. Landvörður leiðsegir á íslensku og er fjölskyldufólk boðið sérstaklega velkomið.
sunnudagur 31. júlí – Drekagil
Kleinubakstur, kaffi og spjall hjá landvörðum
Á alþjóðadag landvarða bjóða landverðir gestum og gangandi í nýbakaðar kleinur og kaffi í nýreistu landvarðahúsi Vatnajökulsþjóðgarðs við Drekagil. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir ferðalanga til að fræðast um störf landvarða, kíkja í nýja landvarðahúsið og gæða sér í leiðinni á heitum kleinum og rjúkandi kaffi.
Kleinubaksturinn hefst kl. 14 í landvarðahúsinu við Drekagil og eru allir boðnir hjartanlega velkomnir. Við hlökkum til að sjá ykkur!
Einnig er vert að minnast á að auki bjóða landverðir í Drekagili upp á tvær daglega fræðslugöngur í allt sumar. Annars vegar um Holuhraun hið nýja kl. 10 og hins vegar inn í Öskju kl. 13. Frekari upplýsingar um göngurnar má nálgast hjá landvörðum í síma 842-4357 eða í síma 842-4363.
Höfuðborgarsvæðið/Suðurland
Landverðir í þjóðgarðinum á Þingvöllum riðu á vaðið og buðu í fimmtudagsgöngu 28. júli sl. þar sem fjallað var um landvörsluna á Þingvöllum, fortíðinni, nútíðinni og hvernig framtíðarsýnin er.
Við hvetjum alla til að nýta sér þennan dag til að kynnast þessari ómetanlegu auðlind sem landvörðurinn er og kynnast starfi hans og endurnýja þar með kynni sín við náttúru og land
Landverðir – til hamingju með daginn.