Stjórn Landvarðafélags Íslands lýsir yfir vonbrigðum með það hvernig staðið hefur verið að málum er varða opnun Vonarskarðs fyrir vélknúna umferð.
Deilt hefur verið lengi um hvort opna eigi Vonarskarð fyrir vélknúna umferð þar sem tvenn sjónarmið hafa tekist á, annars vegar sjónarmið um aukið aðgengið og hins vegar sjónarmið um verndun viðkvæmrar náttúru og óspilltra víðerna. Stjórn Landvarðafélagsins þykir miður hvernig deilurnar etji ólíkum útivistarhópum gegn hver öðrum, sem þó hafa það sameiginlegt að vilja njóta náttúrunnar og vernda. Þessar deilur hafa leitt af sér neikvæða umfjöllun um landvörslu og náttúruvernd og alið á tortryggni í garð þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða ásamt þeim sem þar starfa, til að mynda landvarða. Stjórn Landvarðfélagsins styður aukið aðgengi að náttúru og víðernum Íslands svo lengi sem náttúruverndarsjónarmið lúta ekki í lægra haldi. Stjórn Landvarðafélagsins vill því árétta að ekki megi auka aðgengi á kostnað náttúrunnar, enda fer slíkt gegn markmiðum þjóðgarðsins og getur vart talist sem náttúruvernd. Það er því sérkennilegt að farið skuli gegn ráðleggingum helstu sérfræðinga á sviði náttúruvísinda, en nú hafa til að mynda sérfræðiálit Náttúrufræðistofnunar Íslands og rannsóknarhóps Háskóla Íslands lagt til áframhaldandi lokun fyrir vélknúna umferð.
Stjórn Landvarðafélagsins vonar að tryggt verði fjármagn til aukinnar vöktunar, landvörslu og eftirlits með svæðinu á meðan á tilraunaverkefninu stendur, að vöktunin verði vel skipulögð og skrásett, og að farið verði eftir niðurstöðum vöktunar með hagsmunum náttúru Vonarskarðs að leiðarljósi. Það er áhyggjuefni að aukið fjármagn til eftirlits og vöktunar sé ekki tekið fram sem forsenda fyrir framkvæmd þessa tilraunaverkefnis í fundargerð Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvetur stjórn Landvarðafélagsins eindregið til þess að fjármagn verði tryggt eyrnamerkt þessu. Að fimm árum loknum vonar stjórnin að hægt verði að una niðurstöðu verkefnisins, hver svo sem hún verður, svo hægt verði ljúka deilum um Vonarskarð í eitt skipti fyrir öll.