Gyllta Stikan er viðurkenning sem Landvarðafélag Íslands veitir einstaklingum fyrir einstakt framlag á sviði náttúruverndar, landvörslu eða óeigingjarnt starf í þágu Landvarðafélags Íslands.
Það er okkur mikill heiður og ánægja að veita frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrst allra þessa viðurkenningu. Vigdís hefur veitt landgræðslu, skógrækt og náttúruvernd ómetanlegan stuðning í gegnum í tíðina. Hún hefur talað fyrir því að æskan fái að kynnast náttúrvernd og landrækt og tengjast náttúrunni. Vigdís telur að þar með lærir fólk að umgangast náttúruna af virðingu og ábyrgð.
Landverðir stika gönguleiðir um náttúru Íslands með máluðum viðarstikum. Það þótti því við hæfi að kalla viðurkenninguna Gylltu Stikuna. Stikan sjálf er búin til úr íslensku lerki úr Fljótsdalnum. Friðgeir Kristjánsson, landvörður og listamaður gyllti stikuna og áletraði. Það er okkar von að Gylltu Stikurnar munu stika andlega gönguleið og störf handhafa stikunnar í þágu náttúruverndar verða okkur til fyrirmyndar og hvatningar.