Eldfjallaferð á Snæfellsnes 8. maí 2010

Jardfraediferd_500p
Landverðir í sjóðheitri eldfjallaferð á Snæfellsnesi

Jardfraediferd_500pEyjafjallajökull hefur undanfarna tvo mánuði sýnt okkur hvers eldfjöll eru megnug.  Þess vegna fannst stjórn Landvarðafélagsins það vera alveg upplagt að félagið færi í fræðsluferð um eldfjöll, enda starfa margir landverðir á eldvirkum svæðum.  Snæfellsnes varð fyrir valinu, og sá Haraldur Sigurðsson, einn af okkar virtustu eldfjallafræðingum, um leiðsögn í ferðinni.

Ferðin var löng, og því var lagt af stað á þeim ókristilega tíma kl. 6:00 úr Reykjavík, sem aftraði þó ekki 14 eldhressum morgunhönum að mæta í ferðina.  Við fórum hringinn um Snæfellsnes, og stoppuðum á ýmsum merkum stöðum, enda er Snæfellsnes mikið gósenland fyrir jarðfræðiferðir.  Haraldur sá um frábæra leiðsögn í ferðinni, og voru því ferðalangar allfróðari fyrir vikið.  Eftir að við vorum búin að fara hringinn um Snæfellsnes var farið á Eldfjallasafnið, sem er lítið en stórmerkilegt safn í Stykkishólmi.  Þar má finna málverk og ýmis konar smáhluti sem Haraldur hefur safnað í tengslum við rannsóknir hans á eldfjöllum um víða veröld. 

Eftir að við höfðum horft á glænýja mynd National Geographic um eldgosið í Eyjafjallajökli var að lokum brunað í bæinn, þó með smá stoppi í Borgarnesi, þar sem ísvélin reyndist of freistandi eftir þessa sjóðheitu ferð

Ásta Rut Hjartardóttir

Haraldur_500p