Þriðjudaginn 7. september var haldinn á vegum Umhverfisráðuneytisins  opinn samráðsfundur vegna utanvegaaksturs – í tilefni af því að  ráðuneytið skipaði nýlega, í samráði við samgönguráðuneytið, starfshóp  sem setja á fram tillögur (fyrir 1. desember 2004) um það hvernig hægt  sé að bregðast við þessu sívaxandi vandamáli. Starfshópinn skipa þau  Árni Bragason UST, Eydís Líndal Finnbogadóttir frá Landmælingum og  Eymundur Runólfsson frá Vegagerðinni.
 Á fundinn mættu m.a. fulltrúar Vélhjólaíþróttaklúbbsins (VÍK),  Landverndar, Útivistar, Skotveiðifélagsins, Gæsavatnafélagsins,  Landvarðafélags Íslands, 4×4, Samtaka ferða-þjónustunnar, Sambands  íslenskra sveitarfélaga o.fl. 
 Hanna Kata, Rebekka  (Herðubreiðarlindir) og Guðmundur (Hvannalindir) sátu fundinn f. hönd  Landvarðafélagsins. 
 Spurningarnar sem lagt var upp með  fyrir fundinn og sem nefndin vinnur út frá eru eftirfarandi:
 –  er utanvegaakstur vaxandi vandamál?
 – hvers vegna?
 –  hverjir?
 – hafa aðgerðir haft áhrif?
 – hvað er til ráða? 
 Fulltrúar nefndarinnar sögðu frá því að það væri að mestu  búið að kortleggja landið með tilliti til vega og slóða, en spurningin  væri; Hvað á þá að gera næst? Hvað á hafa opið? Hvað fer á kortið? Hver á  að ráða? Finna þarf svör við þessum spurningum með tilliti til þeirra  sem eru;
 – á bifhjólum,
 – á reiðhjólum,
 – á  bílum,
 – ríðandi, skríðandi
 – gangandi (hjólbörum, bíl –  eins og segir í spilaþulinni góðu).
 Kallað er eftir tillögum og  upplýsingum. Líklega best að senda slíkt á netfang Árna Bragasonar; arni@ust.is.  
 Í máli starfsmanna UST kom fram að löggjöf varðandi  utanvegaakstur er bæði óskýr og ótraust og einnig að það getur verið  erfitt að loka vegum tímabundið þannig að framkvæmdin sé lögleg. 
 Formaður  Vélhjólaíþróttaklúbbsins, „VÍK“, Hrafnkell  Sigurðsson, hélt tölu um aðgerðir og áróður síns félags gegn  utanvegaakstri, þar sem bifhjólamenn hafa sætt mikilli gagnrýni vegna  utanvegaaksturs, og lagði áherslu á þá skoðun sína að hugarfarsbreyting  og áróður væri talsvert mikilvægara en boð og bönn. Hann fullyrti að  allir þeir sem stunduðu útivist væru að einhverju leyti sekir um  utanvegaakstur.
 Hrafnkell sýndi bækling sem samtökin hafa látið  gera varðandi málið. Bent er á heimasíðu samtakanna þar sem hægt er að  kynna sér málið betur á www.motocross.is.
 Tryggvi  Felixson framkvæmdastjóri Landverndar lýsti þeirri skoðun  sinni að fram til þessa hafi allar aðgerðir til að sporna við  utanvegaakstri gjörsamlega mistekist og tími til kominn að viðurkenna  það. Og hann spurði; „Hvort er alvarlegra að borga ekki í stöðumæli eða  keyra utanvega á hálendinu? Hvers vegna hafa landverðir ekki sektanabók  og vald til að skrifa sektir og skella á bílrúður þeirra sem eru staðnir  að verki?“ Hann taldi þetta eina leið til að bæta úr þessu vandamáli og  í rauninni væri mjög einfalt að leysa þetta vandamál, með aðgerðum sem  þessum, án þess að skaða hagsmuni eins eða neins.
 Fleiri tóku  til máls, en án þess að fara að nafngreina hvern og einn munu hér verða  tíundaðar nokkrar hugmyndir, vangaveltur og viðhorf sem fram komu:   
- 
Stikun mjög mikilvæg – það þarf að stika allt sem má keyra.
- 
Stikun hefur gengið brösulega – og hefur því miður oft á tíðum ekkert að segja; menn fara það sem þeir vilja fara hvað sem öllum stikum líður.
- 
Löggjöfin þarf að vera skýrari.
- 
Áróður er besta verkfærið.
- 
Skelfileg hugmynd að kortleggja alla vegi og slóða – og nota síðan slík kort sem opinber leiðbeinandi gögn fyrir almenning. Hvaða slóðar eiga erindi á slíkt kort? Hvað með slóða sem notaðir eru tímabundið á ári hverju vegna veiða og smölunar t.d.? Slíkir slóðar mega alls ekki fara á kort og verða þar með „opnir“ fyrir allra augum. En ef þeir fara ekki á kort eru þá bændur og veiðimenn sjálfkrafa orðnir brotlegir þegar þeir nota þessa slóða?
- 
Gott viðhald vega nauðsynlegt. Heflaðir, niðurgrafnir vegir á hálendi og annars staðar eru ávísun á utanvegaakstur.
- 
Hvar má keyra? Þar sem það er ekki sérstaklega bannað; eða bara þar sem það er sérstaklega leyft?
- 
Samráð við heimamenn nauðsynlegt.
- 
Nauðsynlegt að fá hestamenn með í umræðuna.
- 
Fræðsla til ferðamanna bráðnauðsynleg.
- 
Mikilvægt að muna að til eru mismunandi tegundir af utanvegaakstri s.s. v/snjóa, bleytu, niðurgrafinna vega ofl., og e.t.v. þarf að gera mismunandi ráðstafanir í hverju tilfelli fyrir sig.
- 
Stikun og góðar merkingar eru mikilvægar fyrir bílaleigur, svo og upplýsingar um það fyrir hverskonar bíla viðkomandi vegir eru. Nauðsynlegt að hafa kort í bílaleigubílum sem sýna hvaða vegi tilteknar tegundir bíla mega fara. Undirvagn bílanna er vanalega ótryggður en sönnunarbyrðin liggur í eftirfarandi: „Ég keyrði á ‘vegi’“.
- 
Aukinn fjöldi bílaleigubíla = fleiri bílstjórar – sem oft eru óvanir og ókunnir akstursskilyrðum og reglum um utanvegaakstur hér á landi.
- 
Það er frumskilyrði að hægt sé að gera fólk ábyrgt gerða sinna – að bílstjórar séu ábyrgir fyrir eigin akstri.
- 
„Hálendishlið“: Þyrfti að setja þau upp víðsvegar um landið, þar sem uppi væru skilti með aðgengilegum og skýrum upplýsingum um akstur og hegðun á hálendinu. Þar væru ruslagámar og skilaboð um að allt það sem við hefðum með okkur inn á svæðið tækjum við með okkur út af því aftur, og fleira í þessum dúr.
Landverðir og skálaverðir á hálendinu hafa í sumar orðið vitni að alvarlegum utanvegaakstri en sjaldnast getað aðhafst nokkuð. Það er umhugsunarefni að þeir sem eru starfandi á hálendinu (landverðir, skálaverðir, veðurathugunarmenn) hafa ekkert umboð til að “bregðast við” á staðnum, þeir geta jú talað við fólk, frætt það og bent á ýmsa hluti og tilkynnt um brot á lögum til lögreglu. En spurt er: Kærum við okkur um löggæslu- eða sektunarvald í þessum efnum?!?!?!?!
Rebekka  Þráinsdóttir
berokk@hotmail.com
