Tilkynning frá Skemmti- og fræðslunefnd varðandi vorferð Landvarða:
Af óviðráðanlegum orsökum verður vorferð Landvarða ekki farin í ár vegna lélegrar þátttöku, en sem sárabót verður sögð hér stutt saga sem meðal annars skeði á svæðinu sem átti að fara á og vonandi verður hún bæði fræðandi og skemmtileg fyrir Landverði.
Sagan gerðist 1930 þegar Þórður nokkur kenndur við Dagverðará fór að hitta vin sin Hinrik í Merkinesi. Merkines er á Reykjanesi og þar sem þeir voru báðir refaskyttur í sinni heimasveit, fannst þeim upplagt að vitja grenja á Reykjanesi hjá Hinrik.
Segir nú ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir er komnir að grenjasvæðinu og hófst nú yfirlegan. Þá bað Hinrik Þórð að gagga eins og tófa þar sem hann hafi nú verið að grobba af því í síma við sig að hann hafi sérstak lag á því tala við tófur fyrir vestan. Þurfti ekki að biðja Þórð tvisvar um það. En eftir lýsingum Hinriks að dæma þá hafði hann aldrei á ævinni heyrt önnur eins óhljóð koma úr mannsbarka, enda höfðu tófurnar vit á því að láta ekki sjá sig. Stöðvaði Hinrik nú Þórð og var ekki par hrifinn af frammistöðunni eins Þórður lýsti seinna fyrir mér [Karli H. Bridde]. Hóf þá Hinrik upp raust sína og gaf frá sér þvílík óhljóð samkvæmt lýsingum Þórðar að þau minntu helst á hljóð úr afturgenginni kerlingu sem reiki um Snæfellsnes enn þann dag í dag, en blessunin varð úti í febrúarverðinu 1918 þar sem sonur hennar auminginn hafði neitað að hleypa henni inn bæinn því hann hafði komist í allt feitmetið á bænum og hafði það loksins bærilegt að eigin mati . En við hljóðin úr Hinrik skeði undur og stórmerki því það var svarað bak við hvern stein.
Síðan nokkrum árum seinna fóru þeir félagar aftur til veiða en nú var farið á heimaslóðir Þórðar. Þá bað Þórður Hinrik að gagga, en þó fögur væru hljóðin þá heyrðist ekkert svar. Hóf þá Þórður upp raust sína og viti menn það var svarað bak við hvern stein.
Margur hefur fínar gráður og fagleg próf en þetta getur enginn útskýrt nema hafa stundað náttúruskoðun frá annarri hlið og dýpri. Það er nefnilega skýring á þessu og hún er sú að tófan fyrir vestan og tófan fyrir sunnan tala ekki sama málið.
Í von um að allir hafi það gott í sumar, Skemmti-og fræðslunefnd