Vel heppnaður stofnfundur SNÚ

Á þeim merku tímamótum laugardaginn 3. nóvember 2007. var haldinn stofnfundur samtaka náttúru- og útiskóla, SNÚ. Stjórnin tók þá ákvörðun að mæta á stofnfundinn og var Landvarðafélagið skráð sem eitt af stofnfélögum ásamt 88 öðrum einstaklingum, félögum og stofnunum. Sem undirbúningur fyrir inngöngu í félagsins í SNÚ, ákváðum við að kynna okkur Náttúruskóla Reykjavíkur sem starfræktur hefur verið í 2 ár. Höfðum við Ásta Davíðs, Ásta Rut og Auróra samband við Helenu Óladóttur verkefnastjóra skólans og hittum hana uppi í Heiðmörk. Þar sýndi hún okkur útikennslustofuna og fræddi okkur um starfsemi útiskólans og þróun námsefnis fyrir hann. Fannst okkur þetta mjög fróðlegt og skemmtilegt. Þar sem við vorum svo áhugasamar, bauð hún okkur að taka þátt í næsta námskeiði sem var útieldun. Auróra hafði tök á því að mæta, á því námskeiði voru tveir aðrir landverðir, var námskeiðið afar skemmtilegt. Það er von okkar að þetta marki tímamót og að útikennsla verði viðurkennd sem valkostur í framtíðinni.