Fimmtudaginn 13. september kl. 20 stendur Landvarðafélag Íslands fyrir sýningu á heimildarmyndinni „The Thin Green Line“ sem fjallar um störf landvarða víðsvegar um heiminn. Sýningin fer fram í Norræna húsinu og verður höfundur myndarinnar viðstaddur og svarar spurningum að lokinni sýningu. Ástralski landvörðurinn Sean Willmore seldi bílinn, veðsetti húsið og ferðaðist til 19 landa í 6 heimsálfum með það að markmiði að festa á filmu fólkið sem oft og tíðum leggur líf sitt í hættu við að vernda umhverfi og dýralíf á mörgum af fallegustu stöðum heimsins.
Myndin sýnir marga af fegurstu stöðum veraldar í nýju ljósi. Í stað hefðbundinna náttúrulífsmynda af villtum dýrum og stórbrotinni náttúru með sólarlagið í bakgrunni sjáum við raunveruleikann sem landverðir á þessu stöðum takast á við dags daglega. Myndin veitir innsýn í það mikla og fórnfúsa starf sem fjöldi fólks leggur á sig til að vernda náttúruna svo við getum öll notið hennar.
Þó svo að markmið landvarða um allan heim sé það sama, að vernda náttúruna, geta aðferðirnar til þess verið æði misjafnar háð aðstæðum á hverju svæði. Á meðan vopnaðir landverðir í Afríku kljást við uppreisnarmenn, veiðiþjófa og villidýr starfa kollegar þeirra í Chile í skugga eldgosa, snjóflóða og annarra náttúruhamfara. Sumstaðar í Evrópu er það hinsvegar helst slæm umgengni ferðamanna sem veldur landvörðunum áhyggjum. Sean Willmore komst oft í hann krappann á ferðum sínum og þakkar fyrir að vera á lífi í dag en myndin er tileinkuð landvörðum sem fórna lífi sínu við skyldustörf.
Myndin verður sýnd í Norræna húsinu fimmtudaginn 13. september kl. 20:00. Húsið verður opnað kl. 19:00, miðaverð kr. 500. Allur ágóði af sýningunni rennur beint í sjóð sem styrkir landverði sem hafa slasast við skyldustörf sem og fjölskyldur þeirra sem hafa látið lífið í starfi.
Landverðir eru hvattir til að fjölmenna og einnig vantar gott fólk til að leggja hönd á plóg við undirbúning og eins á sjálfu sýningarkvöldinu. Ætlunin er að vera með kynningu á okkur og okkar störfum við innganginn og væri frábært að fá fólk sem væri tilbúið til að taka þátt. Ekki á hverjum degi sem okkur gefst tækifæri til að vekja athygli á okkur með svo jákvæðum hætti. Áhugasamir hafi samband við Laufeyju í síma 868 2959 eða laufey10@yahoo.com, eða við Soffíu í síma 699 3706, soffiahv@hotmail.com