Haldinn að Suðurbraut 16, Hafnarfirði, sunnudaginn 1. júní 2003 kl. 19:00. Mættir voru: Formaður vor Kristín, Sveinn, Davíð og Elísabet. Umræðuefni fundarins voru eftirfarandi:
Dagskrá framhaldsaðalfundar
Örstutt ræddum við það sem brýnt væri að ræða sem „Önnur mál“ á framhaldsaðalfundinum og njörfuðum niður dagskrá sem fundarstjóri gæti farið eftir.
Fyrirkomulag stjórnarfunda
Stjórnin komst að samkomulagi um að hafa reglulega fundartíma fyrir stjórnarfundi. Fyrsti þriðjudagur í hverjum mánuði virtist henta öllum vel. Þessi tími verður kynntur fyrir félagsmönnum á framhaldsfundinum, í næsta fréttablaði og væntanlega á heimasíðu LÍ. Fyrsti stjórnarfundurinn samkvæmt þessu fyrirkomulagi er áætlaður 2. september nk.
Náttúruverndaráætlun 2003 – 2008
Kristín var komin með drögin að náttúruverndaráætluninni í hendur og stjórnin ræddi hvernig við ættum að vinna úr þessu þar sem LÍ er heimilt að koma með athugasemdir varðanda drögin til 10. júní. Þetta er frekar stuttur tími til stefnu en okkur fannst ekki annað að gera en að hella sér út í þetta. Hildur Þórsdóttir, fyrrverandi formaður, var skammt undan og fékk að deila reynslu sinni í þessum efnum. Hún benti á að þegar fyrrverandi stjórn hafi fengið skýrslu Skipulagsstofnunnar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Þjórsárverum í hendur hafi þau tekið þann kostinn að velja úr það sem þeim fannst skipta máli út frá sjónarmiði landvörslu. Með það markmið fóru þau í gegnum skýrsluna. Hafa þarf í huga eftir hverju er farið þegar svæði er friðlýst, en fyrstu 80 blaðsíðurnar í drögunum að náttúruverndaráætlun fjalla einmitt um það. Í framhaldi af því ræddum við örstutt um hversu mikilvægt væri að varðveita þau svæði sem ekki hefur verið hróflað við af mannahöndum. Kristín, Elísabet og Hildur ákváðu að kynna sér þessi drög enn frekar.
Samskipti LÍ við sveitarfélög og ferðafélög
Hugmynd frá Davíð um að LÍ yrði í meiri samskiptum við sveitafélög og ferðafélög sem koma með einum eða öðrum hætti að náttúruverndarsvæðum vítt og breitt um landið. Athuga hvar sjónarmið stangast á og hver stefnan hjá þeim sé svona almennt. Þessi hugmynd er ekki endanlega útfærð og var einungis lítillega rædd þar sem ekki gafst meiri tími í þetta sinn.
Fleira var ekki rætt og héldum við beint á framhaldsaðalfund félagsins sem haldinn var kl. 20:00 sama kvöld. Fundi slitið
Ritari: Elísabet Kristjánsdóttir