Landverðir! Takið frá fimmtudagskvöldið 15. febrúar!
Eins og landvörðum er sjálfsagt kunnugt þá lagði frækinn hópur landvarða upp í ráðstefnuferð til Skotlands síðastliðið sumar, nánar tiltekið á alþjóðaráðstefnu landvarða á vegum the International Ranger Federation (IRF). Ráðstefnan var haldin í Háskólanum í Sterling og stóð yfir í viku. Þangað komu landverðir hvaðanæva úr heiminum, allt frá Kanada til Kyrgistan, Kambódíu, S-Afríku, Ástralíu og Bólivíu svo eitthvað sé nefnt. Ferðin var í alla staði einkar fróðleg, fluttir voru áhugaverðir fyrirlestrar sem tengdust okkar starfi. Þó var ekki síst áhugavert og gagnlegt að kynnast starfssystkinum okkar alls staðar að úr heiminum og fá að kynnast þeirra starfi og þeim aðstæðum sem þau vinna við.
Okkur langar að miðla af því sem fyrir augu og eyru bar á ráðstefnunni bæði í máli og myndum fimmtudagskvöldið 15. febrúar kl. 20:30. Staðsetning er ekki alveg komin á hreint en þó líklegt að þetta fari fram í húsakynnum Umhverfisstofnunar. Það verður tilkynnt um leið og það skýrist. Léttar veitingar (af áfengum toga) verða seldar á mjög vægu verði.
Ég vil hvetja alla til að koma og kynna sér það sem fór fram í Skotlandi í sumar og hita upp fyrir næstu ráðstefnuferð í Bólivíu 2009. Svo er þetta kjörið tækifæri til að hittast aðeins og spjalla. Nýir félagar sérstaklega velkomnir.
Bestu kveðjur,
Laufey og Dagný