Landvörður á ferðalagi: Stefanía Ragnarsdóttir í Joshua Tree

Landverðir heimsækja iðulega þjóðgarða og friðlýst svæði á ferðalögum sínum erlendis og í Landverðir á ferðalagi fáum við okkar fjölbreytta og víðförla hóp til að lýsa áhugaverðum stöðum með augum landvarðarins. Ef að þú vilt taka þátt endilega sendur okkur línu á landverdir@landverdir.is

Landvörður

Stefanía Ragnarsdóttir hefur verið landvörður síðan 2012. Hún vann fyrst i Skaftafelli en undanfarin sumur hefur hún starfað á hálendinu i Nýjadal í Vatnajökulsþjóðgarði. Stefanía fór í nokkra mánaða ferðalag um Bandaríkin á síðasta ári ásamt unnusta sínum honum Hlyni en þau ferðuðust saman á húsbíl og heimsóttu þjóðgarða og klifursvæði á vesturströndinni.

Joshua Tree

Joshua Tree

Joshua Tree þjóðgarðurinn er staðsettur í Kaliforníu í nokkra tíma fjarðlægð frá Los Angeles. Þjóðgarðurinn einkennist af tveimur eyðimerkursvæðum Mojave og Colorado. Sérkenni þjóðgarðsins eru jarðfræði, menningarminjar, plöntur, dýralíf og einstök eyðimerkurvíðerni.

Þjóðgarðurinn dregur nafn sitt frá Jósúa trjánum (Yucca brevifolia) sem heita Humwichawa hjá innfæddum. En trén fengu seinna nafnið Jósúa tré eða Joshua trees frá innflytjendum sem voru mormóna trúar og þóttu trén minna þau á mann nokkurn Jósúa úr Biblíunni með útréttan faðminn að vísa veginn.

Manneskjan hefur líklega búið í um 5.000 ár á svæðinu en í kringum árið 1920 var mikil uppbygging á svæðinu og með henni fylgdu nýir vegir um eyðimörkina sem breytti landinu hratt og hafð meðal annars þær afleiðingar að mikið var sótt í plöntur eins og kaktusa til að skreyta garða. Minerva Hoyt hafði mikið dálæti á eyðimörkinni sá í hvað stefndi og varð fullviss um að friðlýsa þyrfti svæðið. Hún stofnaði samtök og markmið þeirra voru að friðlýsa eyðimerkursvæði og réði til sín líffræðinga til að taka út svæðin. Á endanum skrifaði Roosevelt forseti bandaríkjanna undir friðlýsingu fyrir Josua Tree svæðið og árið 1936 var 3.200 ferkílómetra þjóðgarður til.

Heimsóknin okkar

Við komum í þjóðgarðinn í janúar 2018 við keyrðum 130 mílur/210km frá Los Angeles til Joshua Tree sem tók tæpa 3 tíma. Við komum á sunnudegi og daginn eftir var Martin Luther King Day, semsagt frídagur svo að tjaldsvæðin voru vel full. Þannig um kvöldið gistum við á tjaldsvæði sem kallast dispersed camping en það eru lönd í eigu almennings sem leyfilegt er að gista ókeypis á en þar er enginn þjónusta. Svæði sem er land í þjóðareign og í umsjá BLM eða Bureu of land managment sem er stofnun undir innanríkisráðuneytinu eins og NPS eða þjóðgarðastofnun bandaríkjanna. Um þessi svæði gilda aðrar reglur og á þeim má oft tjalda ókeypis en oftast eru engir innviðir á svæðinu og það átti við um þetta svæði sem var einfaldlega bara reitur í eyðimörkinni.

Daginn eftir fylltum við bílinn af mat og keyrðum inn í þjóðgarðinn um vestur innganginn en þar keyptum við okkur árspassa í alla þjóðgarða og önnur svæði sem kostaði 80$ eða um 8.000 kr íslenskar. Passinn gildir fyrir alla í bílnum eða fjóra fullorðna og börn. En eldri borgarar, hermenn og börn í fjórða bekk og fjölskyldur þeirra frá frían aðgang. Við hliðið bauð landvörðurinn okkur velkomin í garðinn, gaf okkur upplýsingar og lét okkur fá bæklinga, dagskrá og kort.

Uppbygging garðsins

Það eru þrjár aðal leiðir inn í þjóðgarðinn vestur, norður og suður. Við þessi þrjú hlið eru gestastofur og þær eru allar tengdar með malbikuðum vegum og einnig var hægt að keyra á 4×4 skilgreindum vegum og svo eru merktar gönguleiðir í garðinum en að mestu er garðurinn víðerni. Í garðinum eru svæði fyrir hestaumferð og mörg nestisstopp. Tjaldsvæðin eru 9 með alls 523 plássum eða að meðaltali 60 plássum á hverju svæði og tjaldsvæði fyrir hópa eru sér.

Ágætis sorpflokkun var á svæðinu og lagt upp úr því að láta innviði falla vel að umhverfinu.

Þegar við keyrðum inn í garðinn tókum við strax eftir því hvað það var þægileg vegalend á milli stoppa og frekar fá bílastæði í hverju stoppi, kanski 3-30 stæði á hverjum stað og að flestir gestir stoppuðu stutt. Við upplifðum því strax að gestir dreifðust þægilega um garðinn.

Einnig þóttu okkur gaman að sjá að gönguleiðir að klifurleiðum voru oft sérmerktar og einnig var fræðsla um klifur á nokkrum skiltum. Þannig varð klifrið bæði aðgengilegt fyrir klifrara og einnig hluti af upplifun fyrir aðra gesti.

Ryan tjaldsvæðið, þarna eru 31 stæði og nóttin kostaði 15$.  

Tjaldsvæðin

Við gistum á þrem tjaldsvæðum í garðinum þeim Ryan, Hidden Valley og Indian Cove. Öll höfðu þau sinn sjarma og gerðu dvölina í garðinum mjög ánægjulega. Það kom skemmtilega á óvart hversu mikið pláss hver bíll hafði og að hverju stæði fylgdi grill, bekkur og borð og pittur fyrir varðeld, enda sáum við fljótlega að það fer enginn í útilegu þarna nema að kveikja varðeld.

Uppáhalds tjaldsvæðið okkar var þó klárlega Indian Cove sem var inn á milli hárra kletta og oftar en ekki klifurleiðir á stæðinu sjálfu sem skapaði mjög skemmtilega stemmningu.

 

Hlynur, morgunkaffið og útsýni yfir klifursvæði. En hvert stæði hafði sinn bekk sem féll vel að umhverfinu.

Tjaldsvæðin voru ýmist þannig að fyrstur kemur fyrstur fær og ekki var hægt að taka þau frá eða þau þurfti sérstaklega að panta. Einnig er 30 daga hámark á hvert bílnúmer á ári og aðeins má vera 14 daga í hverjum mánuði. Það var járnvörður sem sá um að taka við greiðslum fyrir tjaldsvæðið þannig að gestir sáu sjálfir um að greiða í umslag og merktu stæðin sín með litlum blöðum – kerfi sem væri aðeins flóknara í framkvæmd þar sem vindur og rigning er líkleg á hverjum degi. En landvörður kom svo við 1-2x á dag og tók peninginn úr járnverðinum og stemmdi við miðana á hverju stæði.

Járnvörðurinn eða Iron Ranger sem tók við greiðslum fyrir tjaldsvæðið. Ábyrgðin og vinnan við að merkja og greiða fyrir tjalsvæðið er því flutt á gestina og svo sér landvörður aðeins um að fylgja eftir.

Víðerni og eyðimerkur

Um 85% af þjóðgarðinum er skilgreint sem víðerni e. Wilderness og fannst mér áhugavert að sjá hvernig flestir þjóðgarðarnir voru að mestu hluta villt svæði sem oft þurfti að sækja um leyfi til að ferðast um og í samtali við landverði þá er leyfið til að stýra ágangi í svæðin en við mörk svæðanna eru t.d. staurar hér og þar og þú færð leyfi til að fara inn í víðernið frá ákveðnum staur til að allir séu ekki að ganga á sama stað. Einnig sér leyfið til þess að viðkomandi geri sér grein fyrir að hann sé á eigin ábyrgð kynntar eru umgengisreglur eins og að allt rusl sé borið til baka til byggða.

Þar sem ég hef starfað mikið á víðernum Sprengisands hefur mér þótt mjög áhugavert að skoða hvernig bandaríkjamenn hafa tekið sín víðerni föstum tökum og sett þau til hliðar. En árið 1964 skilgreindu þau víðerni sem stór svæði án uppbyggingar mannsins til framtíðar og án vega og vélknúinna umferðar þar sem maðurinn kemur aðeins sem gestur í stutta stund. Stundum eru innviðir eins og stígar, skilti eða tjaldsvæði leyfð en það er aðeins til að gæta fyllsta öryggis eða verndunar. Víðernin eða villtu svæðin eru fyrir náttúrna og þangað getur fólk komið til að upplifa frumstæðar aðstæður.

Fræðsla

Við skelltum okkur auðvitað í fræðslugöngu og það var Ranger Duncan sem tóki á mót okkur og gekk með okkur um eyðimörkina og fræddi okkur um Joshua trén, vistkerfi garðsins og hlutverk þjóðgarsins. En Duncan talaði einnig um loftslagsbreytingar af mannavöldum og að þær myndu að öllu óbreyttu eyða Joshua trjánum. En fyrir langa löngu lifðu stærðarinnar sloth letidýr á svæðinu sem að báru fræ trésins langar leiðir en í dag veltur framtíð þeirra aðeins á einu fiðrildi sem þolir illa loftslagsbreytingar. En trén eru mjög lengi að vaxa og það tekur þau um 15 ár að ná 30 sentímetrum.

 

Tveir rauðhærðir landverðir hittast í eyðimörk og standa í skugganum. Við ræddum við Ranger Duncan eftir gönguna sem hafði að sjálfsögðu komið við í layover á Íslandi. 

Að lokum

Joshua Tree þjóðgarðurinn heillaði okkur og við hefðum auðveldlega geta verið fleiri daga í garðinum. Ég mæli klárlega með ferðalagi í garðinn en það er jafnvel hægt að fara dagsferð þangað frá Los Angeles en það er frábært að eyða nokkrum dögum þarna, ganga og klifra sé áhugi fyrir því. Eitt sem okkur þótti líka skemmtilegt var að í kynningarefni fyrir garðinn var mikið talað um að hálf upplifunin væri á kvöldin að horfa á Vetrarbrautina eða Mjólkurslæðuna sem reyndist vera alveg satt og við gerðum tilraun til að ná því á mynd hér fyrir neðan.

Takk fyrir lesturinn!

Allar myndir eru frá Stefaníu eða Hlyni nema:

  1. mynd að aðgangsskilti er héðan
  2. mynd af víðernakorti er héðan