Hlutverk

 Hlutverk Landvarðafélags Íslands er fjölþætt og felur m.a. í sér:

  • Að vinna að hagsmunum félagsmanna og vera forsvarsaðili þeirra út á við; þar á meðal er að semja um kaup og kjör landvarða. Stjórn og trúnaðarmenn félagsins eru félagsmönnum innan handar ef eitthvað bjátar á í landvörslustarfinu.

 

  • Að svara erindum sem beint er til félagsins, vinna greinagerðir um náttúruverndarmál og senda frá sér yfirlýsingar er varða náttúruverndar- og umhverfismál.

 

  • Að marka stefnu landvarða í náttúruverndarmálum með ýmsu móti. Félagið hefur átt fulltrúa á Náttúruverndarþingi og Umhverfisþingi. Landvarðafélagið hefur tekið virkan þátt í baráttunni fyrir vernd íslenskrar náttúru, gjarnan í samvinnu við frjáls félagasamtök s.s. NSÍ (Náttúruverndarsamtök Íslands), NAUST (Náttúruverndarsamtök Austurlands) og SUNN (Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi). Félagsmenn hafa vakið athygli með bréfaskriftum, í útvarpi og sjónvarpi, greinum í blöðum og á þann máta sem tiltækur hefur verið hverju sinni. Félagsmenn tóku meðal annars þátt í undirskriftarsöfnun sem fram fór þegar baráttan um verndun Eyjabakka stóð yfir. 100 landverðir skrifuðu nafn sitt undir ályktun þess efnis að fara ætti fram mat á umhverfisáhrifum áður en ráðist yrði í hinar fyrirhuguðu framkvæmdir.

 

  • Að kynna stefnu félagsins út á við og störf og hlutverk landvarða.

 

  • Að stuðla að fræðslu og símenntun landvarða í samstarfi við Umhverfisstofnun og fleiri aðila. Landvarðanámskeið eru að jafnaði haldin á tveggja ára fresti og var síðasta námskeið var haldið í febrúar-mars 2010.

 

  • Félagið er í samstarfi við systursamtök erlendis, þar má helst nefna Skoska landvarðafélagið, en samstarfi var komið á þeirra á milli árið 1996. Þessi tengsl eru mjög mikilvæg fyrir félagið og landverði.

 

  • Nokkuð veigamikið hlutverk félagsins er að standa fyrir skemmtunum fyrir félaga. Á 29 ára ævi félagsins hafa ýmsar uppákomur átt sér stað. Vorferðir, haustferðir, fræðslufundir, fræðsluferðir, jólaglögg, vorfagnaðir, haustfagnaðir, Landvarðaþing (2004) o.fl. Landverðir starfa víðs vegar um landið yfir sumarmánuðina og sjaldan gefst tækifæri til þess að hittast á þeim tíma. Því er reynt að hrista starfandi landverði úr öllum landshlutum og fyrrum starfandi landverði saman áður en vertíðin hefst og að loknu sumri með ýmsu móti. Það er mikilvægt að landverðir læri af reynslu hvers annars, heyri hvernig starfinu er háttað á hverju svæði fyrir sig og beri sig saman um starfið.

 

Comments are closed.