Alþjóðasamstarf

Undanfarin ár hefur alþjóðasamstarf landvarða staðið með miklum blóma og hefur alþjóðanefnd Landvarðafélag Íslands (LÍ) haft þau samskipti á sinni könnu. LÍ er meðal annars aðili að International Ranger Federation (IRF), en það eru alþjóðleg samtök landvarða.

Samskipti LÍ undanfarin ár hafa þó aðallega verið við Skoska landvarðafélagið, The Scottish Countryside Ranger Association (SCRA). Þau samskipti byrjuðu árið 1995 á stofnfundi IRF í Póllandi og árið 1996 skrifuðu þáverandi formenn undir samstarfs- og vináttusáttmála (Twinning Agreement), þar sem meðal annars er kveðið á um skiptilandvörslu. Árið 1999 urðu fyrstu landvarðaskiptin að veruleika og áfram var svo haldið árið 2000, 2004 og 2005. Tókust skiptin mjög vel.

Í framtíðinni er stefnt að því að skiptast á landvörðum eigi sjaldnar en annað hvert ár, en helst á hverju ári. Sáttmálinn kveður einnig á um að félagar beggja landvarðafélaganna geti sótt ráðstefnur og námskeið hver hjá öðrum og hafa íslenskir landverðir sótt tvö námskeið á vegum SCRA. Þegar sáttmálinn var undirritaður árið 1996 sóttu sjö skoskir landverðir okkur heim og árið 1998 endurguldu fjórir íslenskir landverðir heimsóknina.

Samstarf LÍ og SCRA hefur vaxið og dafnað síðan hornsteinn var lagður að því og er það eindreginn vilji beggja félaga að svo verði áfram, enda hafa þeir félagar sem nýtt hafa sér þau tækifæri sem samstarfið hefur skapað öðlast mikla reynslu. Alþjóðanefnd LÍ vinnur markvisst að því að svo verði áfram.

               scra-logo.gif