Ályktun um orkumál

Fréttatilkynning

Vantar okkur í alvöru 32 Hvalárvirkjanir? 

Landverðir skora á núverandi ríkisstjórn að fara varlega í orkunýtingu í náttúru Íslands og leggja aukna áherslu á náttúruvernd.

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands var haldinn 17. mars. Þar var eftirfarandi ályktun um orkumál samþykkt samhljóða.

Undanfarið hefur skapast mikil umræða um orkuþörf framtíðar en umræðan hefur einkennst af ósætti um það hvernig nýta eigi þá orku sem virkjuð er hér á landi. Á meðan sum telja mikilvægt að forgangsraða þeirri orku sem framleidd er í landinu til orkuskipta, vilja önnur nýta hana til að knýja áfram mengandi stóriðju, grafa eftir rafmynt, og láta orkuskipti mæta afgangi. Afgangi þar sem einfaldlega á að virkja meira til að mæta þörf framtíðarinnar án þess að litið sé til þess í hvað við notum orku dagsins í dag. Því miður virðast núverandi stjórnvöld vera hluti af seinni hópnum.

Landvarðafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að víkja frá þessari virkjanastefnu og nýta frekar þá orku sem framleidd er frekar í rafeldsneyti fyrir samgöngumáta framtíðar, ylrækt og nýsköpun. Hvergi í heiminum er framleidd jafn mikil orka á hvert mannsbarn og á Íslandi og hvergi í heiminum ætti því að vera jafn auðvelt að mæta þeim áskorunum sem felast í orkuskiptum. Um 80% raforku landsins eru nýtt til stóriðju og ætti því að vera auðsótt að nýta hluta orkunnar frekar í orkuskipti. Umræðan ætti að snúast um það í hvað við viljum nýta þá orku sem til er ー ekki hversu mörgum virkjunum við getum troðið í náttúru Íslands.

Í nýrri skýrslu um áskor­anir í orku­málum er þeirri hugmynd varpað fram að stórfjölga þurfi virkjunum og er jafnvel gengið svo langt að segja að orku vanti sem samsvari 32 Hvalárvirkjunum næstu 18 árin. Slíkt tal er ekki aðeins óábyrgt og óskynsamlegt heldur er það líka hvatning til ósjálfbærrar nýtingar auðlinda. Landvarðafélagið harmar að náttúran hafi ekki haft málsvara við gerð skýrslunnar, sem er af þeim sökum ekki nothæf sem grundvöllur málefnalegrar umræðu. Þá þykir félaginu miður að heyra ráðherra umhverfismála taka undir þennan málflutning.

Náttúran er það verðmætasta sem okkur er falið að gæta og það er okkar hlutverk að sjá til þess að kynslóðir framtíðar geti notið hennar, rétt eins og við höfum fengið að gera. Landvarðafélagið skorar því á núverandi ríkisstjórn að leggja aukna áherslu á náttúruvernd í störfum sínum og fara varlega í orkunýtingu í náttúru Íslands.

Á fundinum var jafnframt kosið til stjórnar en nýja stjórn skipa: Nína Aradóttir, Benedikt Traustason, Hrafnhildur Vala Friðriksdóttir, Rakel Anna Boulter og Bjartey Unnur Stefánsdóttir. Varamenn eru þau: Guðrún Úlfarsdóttir og Þórhallur Jóhannsson.

Fyrir hönd landvarðafélagsins,

Nína Aradóttir, formaður – 6614748