Aðalfundur 6. apríl 2011

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands 6. apríl 2011 kl. 19

Fundarstaður:  Veitingastaðurinn Hornið, Hafnarstræti 15, Reykjavík

Mætt:  Ásta K. Davíðsdóttir, Orri Páll Jóhannesson, Susanne Claudia Möckel, Patricia Huld Ryan, Örn Þór Halldórsson, Sigrún Sigurjónsdóttir, Herdís Hermannsdóttir, Kristín Þóra Jökulsdóttir, Stefanía Eir Vignisdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir, Ásmundur Þór Hreinsson, Þórey Anna Matthíasdóttir, Steinunn Egilsdóttir, Rakel Pind, Ásta Rut Hjartardóttir, Jónas Guðmundsson, Þórunn Sigþórsdóttir, Linda Björk Hallgrímsdóttir, Torfi Stefán Jónsson, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, Ragnheiður Jóna Grétarsdóttir Levi.

Dagskrá

1.  Kosning fundarstjóra
Jónas Guðmundsson var kosinn fundarstjóri.

2.  Skýrsla stjórnar
Þórunn Sigþórsdóttir, formaður Landvarðafélagsins, las upp skýrslu stjórnar.  Þar kom fram að heimasíða félagsins var uppfærð í vor.  Auk þess hefur félagið stofnað tvær síður á Facebook, eina hefðbundna síðu sem hverjum sem er getur „líkað“ við, en einnig aðra lokaða síðu sem einungis er fyrir félagsmenn.  Þar er vonast eftir að fram fari spjall um málefni félagsins.  Í vor var haldið landvarðanámskeið sem um 30 manns tóku þátt í.  Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur óskað eftir því að fá leyfi til að veita landvarðaréttindi.  Stjórn Landvarðafélagsins kynnti sér námið á Hvanneyri og taldi að því loknu að námið uppfyllti enn sem komið er ekki þær kröfur sem félagið gerir um landvarðanám, og að námið á Hvanneyri sé ekki sambærilegt því landvarðanámi sem fram fer hjá Umhverfisstofnun og hjá Háskólanum á Hólum.  Þórunn nefndi að ekkert hafi frést af landvarðaráðstefnu sem vera átti í Kaliningrad í Rússlandi í haust.  Aftur á móti verður alþjóðaráðstefna landvarða haldin í Tansaníu á næsta ári.  Hún nefndi að stjórnin hafi rætt um að búa til ráðstefnusjóð sem væri ætlaður til styrktar ferðum félagsmanna á Evrópu og alþjóðaráðstefnur landvarða.  Undirritaður var nýr stofnanasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands (f.h. Landvarðafélagsins) annars vegar og Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs hins vegar.  Vegna efnahagsástandsins var ljóst að ekki yrðu um miklar kjarabætur fyrir landverði að ræða, en kjaranefndin lagði á það mikla áherslu að ekki yrði um kjaraskerðingu að ræða.  Ákveðið var á stjórnarfundi að gerðar yrðu starfslýsingar fyrir meðlimi í nefndum félagsins.  Farið var í endurmenntunar og skemmtiferð á Snæfellsnes síðasta vor þar sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur fræddi hópinn um eldvirkni á nesinu.  Einnig var stefnt að hellaferð með Árna B. Stefánssyni í haust, en sú ferð féll niður vegna veðurs.  20 nýir meðlimir hafa bæst við í Landvarðafélagið.  1. apríl 2011 voru 136 manns skráðir í félagið.

Umræður um skýrslu stjórnar:  Orri Páll Jóhannesson varpaði fram þeirri spurningu af hverju Þingvellur væru aldrei með inni í launaumræðu.  Þórunn Sigþórsdóttir benti á að þeir væru undir öðru ráðuneyti og Torfi Stefán Jónsson nefndi að almennt séð væru laun landvarða í Þingvallaþjóðgarði hærri en annars staðar.  Kristín Þóra Jökulsdóttir spurði að því hvort stefnt væri að frekari lækkun á dagpeningum.  Þórunn Sigþórsdóttir sagði að ekki væri stefnt að því.

3.  Endurskoðaðir reikningar
Torfi Stefán Jónsson gjaldkeri las upp endurskoðaða reikninga.  Aurora Guðrún Friðriksdóttir, skoðunarmaður reikninga, hafði samþykkt reikningana með fyrirvara, þar sem uppgjörið hafði verið gert frá apríl 2010 til apríl 2011, en á samkvæmt lögum félagsins að vera gert upp milli áramóta.  Á fundinum kom einnig í ljós að inn í uppgjörið vantaði greiðslur farþega úr Snæfellsnesferðinni.  Reikningarnir voru samþykktir á fundinum með þeim fyrirvara að lagaðar væru þær skekkjur sem fram hafa komið, og að ný útgáfa uppgjörsins yrði send á póstlista félagsins.  Torfi Stefán Jónsson óskaði eftir því að fá umboð fundarins til að skipta um viðskiptabanka félagsins.  Félagið hefur skipt við Íslandsbanka, en sá banki hefur einungis útibú á Reykjavíkursvæðinu, og óskaði hann því eftir því að fá að færa viðskiptin yfir í banka sem hefur útibú víðar um landið.  Þessi beiðni var samþykkt á fundinum.  

4.  Ákvörðun félagsgjalda
Félagsgjöld hafa verið 2500 kr, og kom stjórn félagsins fram með þá tillögu að hafa þau óbreytt.  Á fundinum var spurt hvort ástæða væri til að hækka félagsgjöldin, en Þórunn Sigþórsdóttir og Torfi Stefán Jónsson töldu það síðra, þar sem þá væru meiri líkur á að fólk gengi úr félaginu.  Samþykkt var að halda félagsgjöldum óbreyttum.  

5.  Kosning stjórnar
Ásta Rut Hjartardóttir og Þórunn Sigþórsdóttir luku sínu kjörtímabili.  Þær voru tilbúnar til að hætta ef nýtt fólk byði sig fram í stjórnina, en voru einnig tilbúnar til að halda áfram að öðrum kosti.  Svo fór að enginn bauð sig fram til að taka við af þeim, og því voru þær kosnar til stjórnarsetu næstu tvö árin.  Samkvæmt lögum félagsins hefði þriðji stjórnarmeðlimurinn einnig átt að vera kosinn á þessum aðalfundi, en þó virðist vera að kerfið hafi ruglast.  Því var ákveðið að stjórnin myndi fara betur í saumana á því máli, og að þetta misræmi yrði leiðrétt að ári.  Því eru nú í stjórn félagsins:  Ásta Rut Hjartardóttir, Þórunn Sigþórsdóttir, Torfi Stefán Jónsson, Linda Björk Hallgrímsdóttir og Guðrún Lára Pálmadóttir.  

Elías Már Guðnason bauð sig fram til áframhaldandi setu sem varamaður í stjórn.  Kristín Þóra Jökulsdóttir var kosin sem varamaður til eins árs.  

6.  Kosning nefnda
Kjaranefnd:
Í kjaranefnd voru kosin þau Torfi Stefán Jónsson og Kristín Þóra Jökulsdóttir.  Unnur Jónsdóttir er auk þess í nefndinni, en ekki tókst að ná sambandi við hana fyrir fundinn og spyrja hvort hún vildi vera áfram.  Því var stjórninni falið að athuga það.

Laganefnd:
Friðrik Dagur Arnarson gaf ekki kost á sér aftur í þessa nefnd, en Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir var til í að vera áfram.  Auk hennar voru Þórey Anna Matthíasdóttir og Örn Halldórsson kosin í þessa nefnd.  

Umhverfis og náttúruverndarnefnd:
Ingibjörg Eiríksdóttir gaf ekki kost á sér aftur í þessa nefnd.  Þórunn Sigþórsdóttir benti á að þessi nefnd hefði í raun aldrei virkað sem skyldi.  Hrönn Guðmundsdóttir spurði til hvers nefndin væri, og svaraði Þórunn því til að nefndin væri stjórninni til ráðgjafar við að senda greinargerðir er vörðuðu náttúruverndarmál.  Þórey Anna Matthíasdóttir nefndi að þetta væri mikilvæg nefnd.  Orri Páll Jóhannesson og Hrönn Guðmundsdóttir voru kjörin í þessa nefnd.  Stjórn var auk þess falið að hafa samband við Ingibjörgu Eiríksdóttur varðandi það hvort hún myndi fallast á það að vera áfram, þar sem tveir nefndarmenn hefðu nú bæst við í nefndina.  

Fræðslu og skemmtinefnd:
Sigrún Sigurjónsdóttir og Herdís Hermannsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram í þessa nefnd.  Ekki hafði náðst í Brodda Hilmarsson fyrir fundinn.  Susanne Claudia Möckel og Örn Halldórsson voru kosin í nefndina og var stjórninni falið að hafa samband við Brodda Hilmarsson varðandi áframhaldandi setu í nefndinni.  

Alþjóðanefnd:
Ásta Kristín Davíðsdóttir og Steinunn Egilsdóttir buðu sig fram í þessa nefnd.  Aurora Guðrún Friðriksdóttir bauð sig einnig fram til áframhaldandi nefndarsetu, og voru þær þrjár kosnar í nefndina.  

Ritnefnd:
Jónas Guðmundsson bauð sig ekki fram til áframhaldandi setu í þessari nefnd.  Hann nefndi að honum fyndist sem þessi nefnd virkaði ekki.  Hann vill að það sé hrist upp í heimasíðunni og að Facebook síðan verði virkari.  Patricia Huld Ryan benti á að hún sæi fáar nýjar færslur frá síðu félagsins á Facebook og nefndi að það mætti alveg hafa nýja færslu 2-3 sinnum í viku.  

Skoðunarmenn reikninga:
Samþykkt var að gefa stjórninni umboð til að finna skoðunarmenn reikninga.  

Ásta Kristín Davíðsdóttir nefndi að þörf væri á að fækka nefndum, að það væri erfitt að manna allar nefndirnar.  Orri Páll Jóhannesson benti á að óþarfi væri að hafa 6 nefndir í þessu litla félagi.  Stjórn var falið að fara yfir þessi mál fyrir næsta aðalfund.  

7.  Önnur mál
a)  Torfi Stefán Jónsson óskaði eftir umræðum um það hve háir ferðastyrkir á alþjóðaráðstefnur landvarða ættu að vera.  Nú væri miðað við að styrkurinn yrði að hámarki 25.000 kr á hvern ferðalang, en óeðlilegt væri að stjórn félagsins ákvæði þetta.  Torfi benti á að Aurora Guðrún Friðriksdóttir teldi að þessi upphæð ætti að vera um 10.000 kr á mann.  Fundarmenn töldu þó að sú upphæð væri of lág, og því var samþykkt að vísa því til stjórnar að ákvarða upphæð þessa styrks.  Kristín Þóra Jökulsdóttir spurði hvernig væri safnað í þennan sjóð.  Þórunn Sigþórsdóttir svaraði því til að 50.000 kr hefðu verið lagðar inn á ári fyrstu tvö árin eftir að samþykkt var á aðalfundi að stofna sjóðinn.  Torfi kom með þá tillögu að ¼ félagsgjalda félagsins fyrir þetta ár myndu renna í ferðasjóð, og var sú tillaga samþykkt.  

b)  Orri Páll Jóhannesson kom fram með fyrirspurn varðandi óskir Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri um að fá leyfi til að veita landvarðaréttindi.  Hann nefndi að margir aðilar vildu fá að veita landvarðaréttindi, og að ekki væri þörf á að allir væru að vasast í þessum litla málaflokki.  Einnig var nefnt að það virtist misjafnt hvort þeir aðilar sem eftir þessu óska bjóði uppá nám sem uppfyllir kröfur um landvarðaréttindi.  Ef farið væri að veita þessum aðilum leyfi til að veita landvarðaréttindi gæti fólk sem hefði próf í mörgum greinum innan Háskóla Íslands allt eins fengið þessi réttindi, þó að ljóst sé að slíkt nám sé ekki nægjanlegt enda tekur það ekki á málum er varða landvörslu sérstaklega.  Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir nefndi að mikilvægt væri að félagið kæmi að þessum málum og Kristín Þóra Jökulsdóttir stakk uppá að félagið myndi búa til kríteríu um það hvað ætti að vera á landvarðanámskeiðinu.  Jónas Guðmundsson bar fram tillögu um að þessu yrði vísað til stjórnar, og var það samþykkt.  

c)  Sigrún Sigurjónsdóttir kom fram með drög að næstu vorferð, og vísaði þeim til nýrrar skemmtinefndar.  Hugmyndir hafa komið fram um að fara í dagsferð á Reykjanes og fá Óskar á Saltfisksetrinu til að vera leiðsögumaður.  Til að mynda mætti halda þessa ferð 7. maí.  Á fundinum kom fram sú spurning hvort innan félagsins væri einhver með rútupróf, enda er rútukostnaður í slíkum ferðum all verulegur.  Bent var á að Gunnar sem hefur verið landvörður á Hveravöllum sé með slíkt próf og eigi auk þess rútu.

Fundi var slitið kl. 21
Ritari:
Ásta Rut Hjartardóttir