Landvarðafélag Íslands tekur heilshugar undir áskorun Landverndar til Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, um að staðfesta ekki fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Samkvæmt breytingar tillögu umhverfisráðuneytisins verður verkefnisstjórn rammaáætlunar skylt að endurmeta hverja þá virkjanahugmynd í verndarflokki sem orkufyrirtæki leggja fram að nýju með jafnvel lítilsháttar breytingum, en hingað til hefur verkefnisstjórnin metið faglega hvort ástæða sé til endurmats tiltekinna virkjanahugmynda. Landvarðafélag Íslands tekur undir þá túlkun Landverndar að ofangreind breyting feli í sér afnám á faglegu sjálfstæði verkefnisstjórnar gagnvart hagsmunum orkufyrirtækja og veiti þeim óæskilegt vald yfir vinnu verkefnisstjórnarinnar. Orkufyrirtæki gætu þannig krafist þess að verkefnisstjórnin endurmeti virkjanahugmyndir á svæðum sem Alþingi Íslendinga hefur þegar ákveðið með lögum að skuli friðlýsa, sbr. Gjástykki og Norðlingaölduveitu (nú Kjalölduveitu). Hið síðastgreinda er sérlega alvarlegt í ljósi mikils seinagangs með friðlýsingar og fjárskorts í málaflokknum. Benda má á að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert svæði í verndarflokki rammaáætlunar verið friðlýst, þótt lög um rammaáætlun kveði svo um.
Landvarðafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en svo virðist sem Landsvirkjun hafi haft óeðlileg áhrif á breytingatillögur ráðuneytisins. Bein aðkoma stærsta orkufyrirtækis landsins að grundvallarreglum um rammaáætlun, í gegnum fundi og tölvupóstsamskipti við ráðuneytið, getur vart staðist viðmið um faglega stjórnsýslu eða gildandi lög um rammaáætlun.
Félagið bendir ennfremur á að náttúra Íslands – ekki síst óbyggðir landsins, víðerni og miðhálendið – er dýrmætasta auðlind þjóðarinnar, hvernig sem á það er litið. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að flestir erlendir ferðamenn á Íslandi heimsækja landið gagngert vegna íslenskrar náttúru og mikilvægi ferðaþjónustunnar sem stoðatvinnugreinar á Íslandi fer ekki fram hjá neinum. Gefur það enn frekari ástæðu til að standa vörð um rammaáætlun og þar með vernd íslenskrar náttúru.
Landvarðafélag Íslands hvetur Sigrúnu Magnúsdóttur til að staðfesta ekki umrædda breytingatillögu, standa vörð um faglega vinnu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og taka höndum saman með landvörðum og öðrum sem tryggja vilja vernd hálendisins og annarra dýrmætustu svæða Íslands.
Landvarðafélag Íslands