Þessi fræðsluaðferð á rætur að rekja til þjóðgarða í Bandaríkjunum.
Umhverfistúlkun (eða náttúrutúlkun) snýst um að lesa í umhverfið, að skilja samhengi og ferli náttúrunnar og hjálpa fólki til að öðlast löngun til að vernda það sem það sér og heyrir um. Í hefðbundinni leiðsögn er áhersla lögð á að miðla upplýsingum. Náttúrutúlkun snýst hins vegar um að tengja fólk við náttúruna með því að virkja skynfæri þess. Aðferðin höfðar til skynjunar og upplifunar þátttakenda og miðar að því að þeir skilji samspil ólíkra þátta í náttúrunni og mikilvægi náttúruverndar.
Markmið umhverfistúlkunar er þannig að hjálpa þátttakendum að fá tilfinningu fyrir því umhverfi sem þeir eru staddir í og vekja með þeim virðingu fyrir því. Gengið er út frá þeirri kenningu að túlkun leiði til skilnings, skilningur til virðingar og virðingin til verndunar. Umhverfistúlkun/náttúrutúlkun er beitt í formlegu fræðslustarfi, svo sem styttri og lengri gönguferðum, barnastundum, fyrirlestrum og gestastofum, en einnig í óformlegu spjalli hvenær sem tækifæri gefst.
Fræðsla landvarða er öllum ókeypis á starfssvæðum þeirra. Landverðir líta á umhverfistúlkun sem eitt öflugasta vopnið í baráttunni fyrir verndun náttúrunnar.