Yfirlýsing Landvarðafélags Íslands vegna erindis Orkustofnunar til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar

Landvarðafélag Íslands gagnrýnir harðlega virkjanastefnu Orkustofnunar.

Í erindi dagsettu 20. janúar 2015 leggur Orkustofnun til 50 virkjanahugmyndir til umfjöllunar verkefnisstjórnar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Fjölmargir þeirra staða sem um ræðir eru á hálendi Íslands, margir innan friðlýstra náttúruverndarsvæða eða í jaðri þeirra og í námunda við vinsæla ferðamannastaði. Ennfremur eru sex virkjanahugmyndanna þegar í verndarflokki rammaáætlunar; Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga, Arnardalsvirkun, er felur í sér veitingu Jökulsár á Fjöllum yfir í Jökuldal/Fljótsdal, Norðlingaölduveita, Tungnaárlón í Tungnaá, Hólmsárvirkjun með miðlun í Hólmsárlóni og Markarfljótsvirkjun A, austan Tindfjallajökuls. Um nokkrar virkjanahugmyndir gildir að þær eru bæði í verndarflokki og einnig lagðar fram að frumkvæði Orkustofnunar. Þetta á til dæmis við um virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti og í Kerlingarfjöllum. Að auki leggur Orkustofnun til nýjar áður óflokkaðar hugmyndir, meðal annars virkjanir á Torfajökulssvæðinu, við Hveravelli á Kili og í Hvítá í Borgarfirði.

 

Með tillögum sínum gerir Orkustofnun alvarlega atlögu að  þeirri vinnu sem unnin hefur verið í tengslum við rammaáætlun. Beiðni stofnunarinnar um að virkjanahugmyndir sem settar voru í verndarflokk í öðrum áfanga rammaáætlunar séu aftur til umfjöllunar í þriðja áfanga er hrein og klár aðför að þeirri sátt sem þó ríkti um vinnu verkefnisstjórnar og aðferðafræði rammaáætlunar. Þannig vinnur Orkustofnun blákalt gegn þeirri yfirlýstu stefnu sem fólgin er í gerð rammaáætlunar; að skapa betri sátt og yfirsýn yfir nýtingu og vernd landsins, þjóðinni allri til heilla.

Landvarðafélag Íslands fordæmir að ríkisstofnunin Orkustofnun leggi til virkjanir innan og í jaðri þjóðgarðs og annarra friðlýstra verndarsvæða okkar Íslendinga. Slíkar framkvæmdir ganga þvert gegn 63. gr. gildandi náttúruverndarlaga nr. 44/1999, um röskun friðlýstra náttúruminja, svo og þeirri almennu meginreglu, er um er fjallað í 14. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007, um bann við spjöllum og raski innan hans. Frekari virkjanaframkvæmdir á hálendinu og á friðlýstum svæðum gengju í berhögg við viðleitni undanfarinna ára og áratuga til aukinnar náttúruverndar á Íslandi. Sá árangur sem meðal annars hefur áunnist með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs verður að engu hafður ef vernd verður aflétt til virkjanaframkvæmda eða helstu jaðarsvæðum þjóðgarðsins raskað.

Enginn vafi leikur á því að ef af þessum virkjunum yrði hefði það gríðarlega slæm og óafturkræf áhrif á hálendi Íslands – síðustu ósnortnu víðerni Evrópu – hina mjög svo sérstöku íslensku náttúru og ferðamennsku í landinu.

Það virðist vera ætlun Orkustofnunar að tryggja það að ekki ríki friður um vernd nokkurs einasta svæðis á landinu. Allt tal um sátt um orkunýtingu á Íslandi verður hjóm eitt og sáttin margumrædda táknar þá aðeins þetta: Gjörnýting vatnsfalla og jarðvarmasvæða Íslands til orkunýtingar. Jökulsá á Fjöllum, Torfajökull og Hveravellir – allt er undir. Slík stefna er aðför að náttúru Íslands og verðmætum þjóðarinnar.    

 

Landvarðafélag Íslands