Almennt um starfið
Undanfarin ár hafa á hverju vori verið ráðnir nokkrir tugir landvarða til starfa í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum vítt og breitt um landið. Þeir sem lokið hafa námskeiði í náttúruvernd og landvörslu ganga jafnan fyrir þegar ráðið er í stöðurnar og eins þeir sem áður hafa starfað sem landverðir. Landverðir hafa mismunandi bakgrunn en margir þeirra eru nemar á háskólastigi eða kennarar. Áhugi á náttúru og náttúruvernd er það sem þetta fólk á almennt sameiginlegt. Starfstími landvarða er oftast 8-12 vikur yfir hásumarið og því sinna flestir landvarðarstarfinu í sumarfríi frá fastri vinnu eða skóla. Vegna þess að starfið er enn sem komið er nær eingöngu í boði yfir sumartímann er algengt að fólk endist ekki í því nema í nokkur ár. Allmargar undantekningar eru þó frá þessu, enda er starfið líflegt og býður upp á mikla fjölbreytni. Stefnt er að því að fjölga störfum heilsárslandvarða. Störf landvarða eru margvísleg og geta verið ólík frá einu svæði til annars, eftir aðstæðum og náttúrufari. Á sumum svæðum starfar aðeins einn landvörður, á öðrum vinnur hópur þeirra. Þótt landvarðarstarfið sé um margt mjög krefjandi og landverðir snúi stundum þreyttir heim að hausti, er það jafnframt svo gefandi að menn halda aftur til starfa sumar eftir sumar. Þetta er fyrst og síðast þjónustustarf og í því reynir ekki hvað síst á hæfni í mannlegum samskiptum. Starfinu fylgja langir vinnudagar, oft við erfiðar aðstæður, en flestir eru sammála um að það sé þess virði, því landvarslan felur í sér mikla útivist og skilur mikið eftir. |