Nú eru flestir þeir sem unnu sem landverðir í sumar komnir af fjöllum og teknir til við önnur störf eða nám. Sumarævintýrin í faðmi náttúrunnar að baki og tími til kominn til að hitta aftur kollegana á mölinni. Það bregst heldur ekki að með lækkandi sól og litaskrúði haustsins færist nýtt líf í félagsstarfið hjá okkur landvörðum. Fyrir dyrum standa bæði nú bæði haustferð og haustfundur. Auk þess er hausthefti fréttabréfsins Ýlis komið út.
Haustferðin er fyrirhuguð 12. okt. og er ætlunin að aka í Hveragerði og ganga um Grændal og Reykjadal. Þar er mikill jarðhiti og heitar laugar við hvert fótmál. Sameiginleg kvöldvaka verður í sumarbústað Dagnýjar Indriðadóttur að göngu lokinni. Nánar er sagt frá ferðatilhögun í Ýli. Helgina eftir, föstudaginn 18. okt. kl. 20:00, verður svo blásið til haustfundar Landvarðafélagsins. Safnast verður saman heima hjá formanninum, Hildi Þórsdóttur, Frakkastíg 20, og rabbað um það sem á dagana dreif á nýliðnu sumri. Ekki er ólíklegt að margt krassandi beri á góma og að fundinum verði fram haldið á einhverju af öldurhúsum bæjarins…
Setjið ykkur í stellingar fyrir tvær góðar helgar í október.