Kæru landverðir,
Eins og ykkur flestum er kunnugt þá brá hópur landvarða undir sig betri fætinum í sumar og fór á alþjóðlega ráðstefnu landvarða (International Ranger Federation) í Skotlandi. Þar kynntumst við ýmsum góðum landvörðum hvaðanæva úr heiminum og þar á meðal Dönum. Við hrifumst mjög af starfi Dananna þar sem mikil áhersla er á fræðslu og náttúrutúlkun og sá þáttur mjög þróaður hjá þeim. Í Danmörku eru landverðir ráðnir af sveitafélögunum og sjá um fræðslu m.a. í skólunum. Við erum svo heppin að danskir landverðir hafa boðist til að halda námskeið fyrir okkur þar sem þeir myndu kynna fyrir okkur þær aðferðir sem notaðar eru í Danmörku. Á námskeiðinu mun fara fram kennsla bæði í formi fyrirlestra og verklegrar kennslu. Námskeiðið mun fara fram á Sjálandi í Danmörku vikuna 18. – 22. júní. Danirnir bjóða námskeiðið á spottprís, eða einungis um 3000 krónur danskar. Innifalið í því er allur námskeiðskostnaður, fæði og gisting meðan á námskeiðinu stendur. Umhverfisstofnun hefur lýst yfir vilja til að styðja við námskeiðið eftir fremsta megni þó ástandið þar innra hamli þeim að taka nokkrar ákvarðanir að ráði eins og er. Reynt verður að falast eftir styrkjum og mun væntanlega skýrast þegar á líður hvaða árangri það skilar. UST er tilbúin til að gera allt sem hægt er til að landverðir sem þegar hafa hafið störf á þessum tíma geti farið á námskeiðið sem vinnuferð.
Meðfylgjandi er dagskrá námskeiðsins sem ætti að gefa gleggri mynd af því sem fram fer. Hér er um að ræða einstakt tækifæri og hvet ég ykkur til að láta þetta ekki framhjá ykkur fara. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Laufeyju, laufey10@yahoo.com, s. 868 2959 eða Áka, aki@mmedia.is
Gott væri að heyra frá áhugasömum.
Bestu kveðjur,
Laufey Erla Jónsdóttir