Til að fá formleg réttindi sem landvörður þarf fólk að hafa lokið sérstöku námskeiði í náttúruvernd og landvörslu sem Umhverfisstofnun (áður Náttúruvernd ríkisins) hefur forgöngu um. Námskeiðin eru að jafnaði haldin annað hvert ár. Þátttökurétt á landvarðanámskeiði geta þeir öðlast sem orðnir eru 20 ára og hafa lokið stúdentsprófi eða hafa aðra sambærilega menntun eða reynslu.
Á námskeiðinu er fjallað um helstu atriði sem snerta starf landvarða, svo sem náttúruvernd og álitamál um landnýtingu, jarðfræði og líffræði, lög og reglur, stígagerð, þjónustuhlutverk, framkomu og miðlun upplýsinga, svo nokkuð sé nefnt. Sérstök áhersla er lögð á umhverfis- eða náttúrutúlkun, þá fræðsluaðferð sem hentar hvað best við landvörslu og náttúruverndarstörf.
Auk þess sem að ofan greinir geta nemendur á ferðamálabraut Háskólans á Hólum útskrifast með landvarðarréttindi. Byggist það á samstarfi skólans við Umhverfisstofnun. Myndin er frá landvarðanámskeiði Náttúruverndar ríkisins (nú Umhverfisstofnun) í Skaftafelli haustið 2001.