Hlutverk

Reglugerð um landverði  

 

Meginhlutverk landvarða er:

  •     að gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt á hverju svæði fyrir sig.
  •     að taka á móti gestum og veita þeim nauðsynlegar upplýsingar og kynna þeim umgengnisvenjur og reglur hvers svæðis.
  •     að fræða fólk um gönguleiðir, náttúrufar, staðhætti og sögu.
  •     að sjá um að halda svæðum hreinum, þ.e. tjaldsvæðum, göngustígum og bílaplönum, sem og klósettum og kömrum; náttúruvættum og náttúru þess svæðis sem þeir vinna á.
  •     að merkja göngustíga, leggja nýja og halda þeim við.
  •     að vera til aðstoðar þeim sem á svæðunum dvelja.
  •     að hafa eftirlit með umferð og umgengni ferðamanna.
  •     að vera til taks þegar slys ber að höndum, veita fyrstu hjálp og kalla á lækni, lögreglu eða björgunarsveitir ef ástæða er til.
  •     að stjórna fyrstu aðgerð við leit ef einhver týnist á svæðinu, kalla til lögreglu og björgunarsveitir og aðstoða þær ef með þarf.

Áhersla er lögð á að hægt sé að leita til landvarða hvenær sem þörf krefur, allan sólarhringinn.

 

 

Kaflar um landverði í Náttúruverndarlögum

XIV. kafli. Umsjón og eftirlit með náttúruverndarsvæðum.

 79. gr. Yfirumsjón og ábyrgð á eftirliti.

 Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með náttúruverndarsvæðum og ber ábyrgð á eftirliti með þeim nema annað sé tekið fram í lögum. Ráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, jarðminja, gróðurfars eða dýralífs.

 Umhverfisstofnun gefur ráðherra árlega skýrslu um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar.

 80. gr. Landverðir.

 Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og eftir atvikum aðrir starfsmenn. Landverðir annast daglegan rekstur og umsjón, eftir atvikum í samræmi við [stjórnunar- og verndaráætlun], 1) sbr. 81. gr., sinna fræðslu og fara með eftirlit, sbr. 84. gr.

 Ráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.

 Umhverfisstofnun skal halda námskeið í landvörslu í samræmi við reglugerð ráðherra, sbr. 2. mgr. Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir námskeið í landvörslu og próftöku sem þátttakendur greiða. Upphæð gjalds má ekki vera hærri en sá kostnaður sem hlýst af námskeiðshaldi og vinnu vegna próftöku. Ráðherra setur gjaldskrá að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

    1)L. 109/2015, 3. gr. 

82. gr. Rekstur þjóðgarða.

 Í hverjum þjóðgarði samkvæmt lögum þessum skal starfa þjóðgarðsvörður sem er starfsmaður Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi.

 Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur og umsjón þjóðgarðs í samræmi við [stjórnunar- og verndaráætlun], 1) sér um fræðslu og fer með eftirlit í samræmi við 84. gr. Þjóðgarðsvörður ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins, þar á meðal landverði, og skipuleggur starf þess.

 Ráðherra er heimilt að stofna þjóðgarðsráð með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna, stofnana og eftir atvikum félagasamtaka á sviði náttúruverndar og ferðaþjónustu til að vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins.

 Þjóðgarðsvörður og þjóðgarðsráð taka þátt í gerð og endurskoðun [stjórnunar- og verndaráætlunar] 1) fyrir þjóðgarðinn.

    1)L. 109/2015, 3. gr. 

 84. gr. Eftirlit á náttúruverndarsvæðum.

 Landverðir, þjóðgarðsverðir og aðrir starfsmenn náttúruverndarsvæða hafa eftirlit með því að virt séu ákvæði laga þessara og aðrar reglur sem um svæðin gilda. Þeir annast samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum og reglum.

 Landvörðum, þjóðgarðsvörðum og þeim sem falið er eftirlit á grundvelli 2. mgr. 85. gr. er heimilt að vísa af viðkomandi náttúruverndarsvæði hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum laganna eða reglum sem um svæðið gilda.