Ein af fyrstu íslensku heimildunum þar sem orðið „landvörður“ kemur fyrir er í tímaritinu Fróða frá árinu 1882, þar sem sagt er að landvörður eigi að koma í stað hinna fornu landvætta.
Við landvörslustörf þarf að gæta þess að náttúruverndarlög séu virt og felst vinnan því að miklu leiti í línudansi milli nýtingar og verndunar. Það er að miklum hluta gert með því að ræða við ferðafólk á svæðinu og veita upplýsingar um umgengnisreglur ásamt fróðleik um svæði eða nálæga áhugaverða staði og einnig er farið í fræðslugöngur.
Til vinstri: Landvörður rakar utanvegaakstur við hliðin á veg. Til hægri: rætt við ferðafólk.
Viðhald á svæðinu er veigamikill þáttur í starfinu og þarf m.a. að raka skemmdir eftir utanvegaakstur, týna rusl og sjá til þess að innviðir þess eins og göngustígar og merkingar séu í lagi. Það þarf að vera vakandi fyrir ástandi svæðisins og grípa til verndaraðgerða ef ágangur ferðafólks er orðinn of mikill fyrir náttúru svæðisins. Veður getur gert vegi ófæra eða náttúrvá komið upp og þá þarf að stýra ferðafólki annað vegna öryggis.
Þeir aðilar sem hafa umsjón með friðlýstum svæðum og ráða landverði til starfa eru Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður.
Störf landvarða hafa hingað til nær eingöngu verið sumarstörf. Á síðustu árum hefur þó færst í vöxt að landvarðamenntað fólk sé ráðið til heilsársstarfa, einkum sem sérfræðingar í þjóðgörðunum.