Landvarðalíf eru stutt kynningarmyndbönd um landvörslu á Íslandi. Framleidd af Landvarðafélagi Íslands og styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Ein af fyrstu íslensku heimildunum þar sem orðið „landvörður“ kemur fyrir er í tímaritinu Fróða frá árinu 1882, þar sem sagt er að landvörður eigi að koma í stað hinna fornu landvætta.
Landverðir sinna gífurlega mikilvægu verkefni sem útverðir Íslenskrar náttúru þeir tína rusl, viðhalda göngustígum, bjóða gestum í fræðslugöngu, fylgjast með náttúru, aðstoða gesti í neyð og sinna miklum forvörnum á friðlýstum svæðum til að tryggja verndun náttúru og öryggi gesta svo fátt eitt sé nefnt.
Myndböndin spanna verkefni landvarða þvert á stofnanir og má öll finna hér fyrir neðan:
Fjallabak og göngustígar
Landvarðalíf á Fjallabaki er fimmta og síðasta myndbandið og þar hittum við Hákon Ásgeirsson landvörð og Náttúru- og umhverfisfræðing. Landmannalaugar eru sívinsæll áfangastaður og þangað leggja leið sína fjöldinn allur af ferðafólki í dagsferðir eða lengri göngur. Landverðir leggja því mikla áherslur á að þekkja gönguleiðir og viðhalda þeim til að tryggja náttúruvernd og öryggi gesta.
Askja & fræðsla
Landvarðalíf við Öskju er fjórða myndbandið og þar hittum við landverðina Margréti sem einnig er jarðfræðingur og Lindu sem er líffræðingur og starfar einnig við leiðsögn á suðurskautinu. Askja er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins á hálendinu en svæðið er stórt og aðstæður krefjandi. Landverðir þurfa því að hafa yfirsýn yfir stórt svæði og mikil áhersla er á að fræða ferðafólk um öryggi og einkenni svæðisins.
Gullfoss, Geysir & jafnvægið
Landvarðalíf við Gullfoss og Geysi er þriðja myndbandið og þar hittum við Ágústu Gunnarsdóttur landvörð, listakonu og nema í Umhverfis- og auðlindafræði. Svæðið er þekkt fyrir mikinn fjölda ferðamanna og því er jafnvægi í náttúruvernd stór hluti af starfinu og ekki má gleyma að kjarna sig eftir að hitta um 3.000 manns á dag.
Lakagígar & mosinn
Benedikt Traustason er landvörður og líffræðingur sem starfar í Lakagígum. Svæðið er mosavaxið og því sérstaklega viðkvæmt og tekur landvarslan mið af því.
Sérstakar þakkir:
Ágústa Gunnarsdóttir, Benedikt Traustason, Hákon Ásgeirsson, Linda Ársælsdóttir, Margrét Gísladóttir og Paweł Łopatka.
Kvikmyndataka og klipping: Gasa E Kenny og Stefanía Eir Vignisdóttir